141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ekki lítið úr því að menn dragi það fram að einhverjir hnökrar geti komið á kerfið við innleiðingu nýmæla, rétt eins og hv. þingmaður tók dæmi um með upplýsingaréttinn. Hann gerir ráð fyrir því að opinber skjöl verði sjálfkrafa aðgengileg og opin, með því verði aðgangur að skjölunum auðveldaður sem mundi stuðla að meira aðhaldi og fleiru sem er talið upp sem meginröksemdir fyrir honum. Eðlilegt er að viðbrögð komi fram frá kerfinu um að við innleiðinguna geti þurft að grípa til bráðabirgðaákvæða, seinkunar, viðbragða og undirbúnings margs konar, það er bara eðlilegt. Ég held að það sé vel undir það sett og vel undir það búið. Við erum að ræða þetta akkúrat núna. Það er verið að benda á álitaefnin í greinargerðum og bregðast við þeim með bráðabirgðaákvæðum og fleiru. Ég held að í rauninni sé brugðist við öllu sem hefur verið bent á að geti horft til trafala í þessu ferli, svo langt sem það nær.