141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki jókst trú mín á frumvarpið og ferlið þegar hv. þingmaður sagði að næsta þing mundi ákveða að senda þetta til þjóðaratkvæðagreiðslu, þetta sama stjórnarskrárfrumvarp. Það er í gildi stjórnarskrá. Hún segir að þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á stjórnarskrá verði þing strax rofið og boðað til kosninga, það verður væntanlega gert í vor, síðan komi nýtt þing og ef það samþykkir breytinguna er hún orðin að stjórnarskipunarlögum. Því fær ekkert breytt. Ætlar hv. þingmaður því þingi að láta þá stjórnarskrá aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvað skyldi það gera, frú forseti, ef þjóðin hafnar stjórnarskránni í þeirri kosningu? Hún hlýtur að hafa leyfi til þess. Þá er engin stjórnarskrá í gildi. Hvað er eiginlega að gerast í rökhugsuninni?