141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er undarlegt að heyra að hv. þingmaður dragi það í efa að ný stjórnarskrá fullbúin og í endanlegri gerð gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er bara svo sjálfsagt mál. Því hefur margoft verið lýst yfir af forustumönnum, eins og ég sagði áðan, að frumvarp til laga um stjórnskipun sem þingið hefur afgreitt frá sér sem stjórnarskipunarlög gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Því hefur margoft verið lýst yfir af forustumönnum stjórnarflokkanna og mörgum öðrum þingmönnum og aldrei mótmælt svo ég viti af neinum. Það er sjálfsagt mál að einhver hafi aðra skoðun, að ekki eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um endanlega gerð hinnar nýju stjórnarskrár. Mér finnst það sjálfsagt mál og á það hafa aldrei verið bornar brigður hér þegar fram hefur komið afdráttarlaus vilji stjórnarmeirihlutans til að slík atkvæðagreiðsla fari fram. Það liggur bara í hlutarins eðli. Það er endirinn á hinu langa og ítarlega lýðræðisferli sem hefur staðið yfir við endurskoðun stjórnarskrárinnar.