141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svindla mér inn í andsvör hv. þingmanna Björgvins G. Sigurðssonar og Péturs H. Blöndals, en meðal annars hefur verið spurning í þinginu hvort sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla verði um nýja stjórnarskrá eða stjórnarskrárfrumvarp samhliða þingkosningum í vor eins og sumir talsmenn ríkisstjórnarinnar lýstu stundum yfir hér á fyrri stigum. Mér heyrðist hæstv. forsætisráðherra draga í land í síðustu viku. Yfirlýsingar hafa verið misvísandi og ef ætlunin er að gera nýja stjórnarskrá þannig úr garði að hún þurfi samþykki þjóðaratkvæðagreiðslu til að ná gildi þyrfti að koma fram breytingartillaga við frumvarpið sem fæli það í sér en slík breytingartillaga hefur ekki enn sést þó að hún kynni auðvitað að koma á síðari stigum.

Að þeirri umræðu slepptri velti ég fyrir mér atriði sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar. Ég tek það fram að ég held að allsherjarnefnd hafi að mörgu leyti unnið gott starf þó að nokkuð snöggt yrði um lyktir þess nefndarstarfs eins og fram kom hér í umræðum á sínum tíma. Það er ljóst að menn hafa velt ýmsu fyrir sér í nefndarstarfinu.

Ég vildi spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formann allsherjarnefndar, hvort hann sé ekki sammála því sem fram kemur í nefndarálitinu í kaflanum „Atriði sem þurfa nánari skoðunar við“ þar sem er fjallað um óskýrleika greinargerðar og að brýnt sé að ráða bót á því og eins þar sem segir:

„Brýnt er að meta áhrif frumvarpsins verði það samþykkt. Á þetta meðal annars við um fjárhagsleg áhrif þess, raunveruleg réttaráhrif og ávinning breytinga og nýmæla og mögulega ókosti þeirra eða afleidd áhrif. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að meta þarf hvaða lögum þurfi að breyta …“

Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki sammála þeim ábendingum (Forseti hringir.) meiri hlutans sem fram koma við þessa umræðu.