141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um fyrra atriðið þá veit ég ekki til þess að lögð hafi verið fram tillaga um tímasetningu á margboðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin, en margir hafa talið heppilegt að hún yrði samhliða þingkosningum. Það má vel vera að það sé enn þá hugmynd og tillaga hæstv. forsætisráðherra, mér er ekki kunnugt um það, en ég held að mjög heppilegt væri að klára málið þá.

Það hefur margoft verið sagt að lyktir ferilsins séu þær að þjóðin greiði aftur atkvæði um málið í endanlegri gerð frá þinginu. Það finnst mér algjörlega sjálfsagt mál og engin önnur leið að ljúka því mikla lýðræðisferli sem átt hefur sér stað. Það er einstakt í heiminum með hvaða hætti endurskoðun á stjórnarskránni hefur farið fram hérna á Íslandi, á sér enga líka, og við munum örugglega verða stolt af því lengi í framtíðinni.

Hvað varðar hitt sem þingmaðurinn nefndi, um þau atriði sem þarf að skoða, þá fjölluðum við ítarlega um þessar 32 greinar og fengum marga til samtals og samræðu við okkur um þær. Margir voru mjög gagnrýnir á ýmislegt og komu með margar ábendingar. Við vildum að sjálfsögðu árétta það að við teldum að einstök áhrif, sem við vissum ekki og höfðum ekki yfirsýn yfir hvort væri verið að skoða í hinni nefndinni eða væri búið að því o.s.frv., þurfi að meta sérstaklega.

Stjórnskipunarnefnd hefur að sjálfsögðu unnið úr þessum tillögum og farið ítarlega yfir alla þætti málsins. Breytingartillögurnar sem við gerum held ég að séu allar settar fram sem í áliti stjórnskipunarnefndar nema hugsanlega ein sem snýr að menningarminjum.