141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Fyrir liggur ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Tímasetningin á henni hefur einfaldlega ekki, svo mér sé kunnugt um, verið lögð til. Það er annarra að leggja hana til og hefur ekki komið enn þá inn í þessa umræðu hér. Það á því eftir að koma í ljós hvenær hún verður nákvæmlega.

Það sem hefur margoft verið heitið er að þetta ferli gangi óslitið til enda og endirinn á því er þjóðaratkvæðagreiðsla um endanlega gerð tillagnanna. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið að vinna og mun vinna og er að vinna mjög nákvæmlega úr umsögnunum og álitunum sem til hennar var beint. Það er fullyrt hér að hún hafi ekki gert það í einhverjum tilfellum. Ég efast um að það sé rétt og dreg ekki í neinn efa að ferlið sé í gangi, það sé verið að meta það sem þarf að meta eða hafi ekki verið metið áður, af því að ég veit að í nefndinni var farið mjög nákvæmlega yfir allar umsagnir og brugðist við öllu sem þar kom fram.