141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður óttast að breytingarnar á 13. gr. séu til þess að skerða eignarrétt. Ég ítreka að röksemdirnar sem fylgja þessari tillögu frá upphafi og í gegnum ferlið allt eru þær að hér sé um formbreytingu að ræða en ekki eðlisbreytingu og áréttingu á núverandi réttarástandi. Það er síðan stutt með þeim rökum sem við fórum yfir áðan.

Ég hygg að við getum verið sammála um að ofurtrúin á eignarréttinum sem hefur verið í stjórnarskránni allan þennan tíma, að hann skuli vera friðhelgur, er óvenjulega sterkt orðað í íslenskri stjórnarskrá, miklum mun sterkar en í öðrum þeim stjórnarskrám sem við höfum skoðað. Við í þessum sal vitum að við viljum frelsi til athafna en það frelsi má ekki nota til þess að skerða frelsi annarra. Við lifum í samfélagi og það er á grunni þeirra lýðræðishefða sem til er vísað í takmörkununum hér.

Frú forseti. Þetta var yfirgripsmikil ræða. Ég ætla aðeins að koma að því sem hv. þingmaður sagði um að nefndin væri að breyta eigin tillögum. Já, nefndin hefur hlustað bæði á tillögur og umsagnir úr nefndum og á þær umsagnir og tillögur sem bárust frá gestum. Við lögðum fram þetta frumvarp eins og heitið var og niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október var að frumvarp skyldi lagt fram og það byggt á þeim grunni sem stjórnlagaráð lagði. Það var samþykkt í atkvæðagreiðslunni. Við fylgdum þeirri leiðbeiningu út í ystu æsar, tókum aftur inn þjóðkirkjuna, m.a. vegna þess að það var ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þess vegna höfum við hlýtt á og farið eftir tillögum. Eitt af því sem við höfum breytt er að taka ekki atkvæðisréttinn af forseta þingsins. Ég held að það hafi komið tillögur frá þremur nefndum, a.m.k. tveimur, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (Forseti hringir.) auk þess sem fjölmargir einstaklingar og aðrir aðilar í samfélaginu hafa bent á að þetta væri óeðlileg skipan mála.