141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Alþingi stendur núna frammi fyrir gríðarlegum vanda, ekki bara vegna þess að við erum í þeirri stöðu að við erum að fjalla um þýðingarmestu lagasetninguna sem við tökumst á hendur á þessu kjörtímabili og kannski þótt miklu lengra sé leitað, og örugglega, heldur einkanlega vegna þess að þegar við förum yfir málið blasir við öllum sem vilja sjá það og skoða með opnum huga að við erum komin í hreinar ógöngur með málið.

Það vantar ekki að aðdragandinn að því er langur. Það má segja að aðdragandinn að þessu máli sé allar götur frá því að núverandi ríkisstjórn var sett á laggirnar um mitt ár 2009 þannig að í sjálfu sér má segja að þegar við skoðum þetta í því ljósi komi í raun algjörlega á óvart að við skulum vera stödd í þeim sporum sem við erum í í dag og komin með þetta mikla mál í þær miklu ógöngur sem ég held að flestum séu algjörlega ljósar.

Það hefur komið fram í máli fjölmargra, m.a. í dag, að ýmsar þær tillögur sem þó er teflt fram í breytingartillögum meiri hlutans eru hálfkaraðar í mjög veigamiklum atriðum. Þegar við berum málið síðan saman við þær athugasemdir sem hafa borist frá nánast öllum sérfræðingum sem láta sig þessi mál einhverju varða er ljóst að við erum stödd á alvarlegum krossgötum með málið og þurfum að reyna að átta okkur á því með hvaða hætti hægt verður að ljúka því áður en við stefnum í enn meiri ógöngur ef það verður samþykkt.

Í raun er staðan einhvern veginn svona: Annars vegar höfum við tillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ásamt því frumvarpi sem fyrir liggur og hins vegar höfum við álit nánast allra sérfræðinga sem hafa tjáð sig um málið.

Ég hljóp yfir lista þeirra sérfræðinga sem skiluðu áliti til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og annarra þingnefnda sem höfðu um þetta mál að segja. Ég fór yfir þessi álit, sum hver býsna vel, yfir önnur skautaði ég, en öll áttu þau eitt sammerkt með munnlegum ábendingum á fundum háskólasamfélagsins sem hafa verið einir fimm eða sex á þessu hausti; að þetta frumvarp nái ekki máli og sé óbrúklegt sem stjórnarskrá. Samt erum við núna, þegar innan við 20 þingdagar eru eftir samkvæmt starfsáætlun Alþingis, í þeim sporum að við erum að ræða málin. Við erum ekki komin lengra en þetta þrátt fyrir að hafa haft hér um bil allt kjörtímabilið til að fara yfir málið og þrátt fyrir fjöldamargar vísbendingar frá sérfræðingum á fyrri stigum sem hefðu að öllu jöfnu átt að vera nægilegur leiðarvísir fyrir okkur til að gera okkur grein fyrir því að sú aðferðafræði sem þessi lagasmíð byggir á gat ekki gengið upp.

Þau stórkarlalegu áform að ætla að endurskoða stjórnarskrána með þeim hætti að endurrita hana alveg ganga augljóslega ekki upp. Við getum og verðum að horfast í augu við þá staðreynd að núna, þegar svo skammt er til kosninga, mun þetta verk einfaldlega ekki takast.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Róbert Marshall benti á í dag í að mörgu leyti ágætri ræðu, þetta er staðan. Við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar, sama hversu sárar og erfiðar þær kunna að vera fyrir þá sem trúðu að hið mikla og stóra verkefni okkar væri að færa íslenska lýðveldinu nýja stjórnarskrá og það með þeim vinnubrögðum sem hafa verið ástunduð. Ég geri út af fyrir sig ekki lítið úr þeirri trú.

Nú geta menn farið í skotgrafir og sagt: Ja, þetta er vegna þess að stjórnarandstaðan hefur þvælst fyrir málinu.

En er það þannig? Hefur stjórnarandstaðan þvælst fyrir þessu máli? Við höfum einfaldlega kallað eftir efnislegri umræðu um þetta mál meira og minna allt kjörtímabilið en það hefur ekki verið hægt vegna þess að plaggið, sem hlaut að vera grundvöllur þeirrar umræðu, frumvarpið að nýrri stjórnarskrá, var ekki lagt fram fyrr en á haustdögum. Því var vísað til þingnefndar á aðventunni. Það átti upphaflega að klára málið í fagnefndum á fimm eða sex dögum. Auðvitað tóku skynsamir menn völdin í þessum efnum og sáu að það gat ekki gengið. Það blasti við öllum. Þá var ætlunin að afgreiða málið, eins og við munum, eftir áramótin án þess að fagnefndirnar hefðu lokið störfum. Það var einbeittur vilji, en aftur tóku skynsamari öfl fram fyrir hendurnar á þeim sem svona ætluðu að vinna enda hefði það ekki litið mjög vel út í umræðunni sem hefur gengið út á að það sé hið lýðræðislega ferli, hin vönduðu vinnubrögð, hið gagnsæja ferli og það allt saman, allir þessir frasar sem við þekkjum. Það hefði ekki litið mjög vel út að koma fram með þingmál án þess að því fylgdu athugasemdir eða ábendingar þeirra sem höfðu fengið málið til umfjöllunar í öðrum þingnefndum.

Eins og við vitum hófst þetta með þjóðfundi. Fræðimenn hafa bent á að það sé mjög varhugavert að túlka niðurstöðu þjóðfundarins of djarft. Í fyrsta lagi var hún á margan hátt almenns eðlis. Í öðru lagi byggðist hún á slembiúrtaki sem er ekki endilega vísbending um þverskurð af þjóðinni, eins og til að mynda Gunnar Helgi Kristinsson hefur bent réttilega á.

Eins og við vitum var stjórnlagaþingið á sínum tíma kosið ólögmætri kosningu og síðan var skipað stjórnlagaráð sem lagði fram tillögur. Þær tillögur lágu hins vegar býsna lengi í salti. Frumvarpið sem stjórnlagaráðið skilaði af sér lá í salti og var síðan tekið til meðhöndlunar, eins og við vitum, hjá sérstakri sérfræðinganefnd sem lagði málið fyrir.

Það er rétt að fylla aðeins inn í þessa umræðu og vekja athygli á því að þegar málið var síðan borið fram á Alþingi var gert ráð fyrir því að það yrði sent til umsagnar í einstökum þingnefndum. Það var að mínu mati mjög áhugaverð nálgun í málinu, en þá hefði hugur algjörlega þurft að fylgja máli í þeim skilningi að menn ætluðu að gera eitthvað með ábendingar eða niðurstöður þingnefndanna sem hefðu haft með málið að gera.

Ég sit í tveimur nefndum Alþingis, atvinnuveganefnd og velferðarnefnd. Ég finn ekkert að vinnubrögðum þessara nefnda miðað við þann tímaramma sem okkur var fenginn. Við kölluðum til okkar sérfræðinga. Forustumenn nefndanna voru tiltölulega jákvæðir fyrir því að kalla til þá sérfræðinga sem eftir var leitað. Við fengum síðan að vísu mjög takmörkuð skrifleg gögn, en margt af því sem þar kom fram var hins vegar áhugavert og gott til þess að styðjast við. Það sem gerðist í framhaldinu og skapar þann vanda sem við erum að glíma við er að málinu var ekki lokið. Þessar nefndir höfðu hvorki tóm né tækifæri til þess að skila álitum sem í raun og veru fælu í sér nægilega leiðsögn fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég ætla að taka dæmi af atvinnuveganefnd. Meiri hluti þeirrar nefndar nálgaðist málið þannig að í stað þess að leggja fram breytingartillögur ákvað meiri hlutinn að skila áliti sínu þannig að það voru rakin efnisatriði í munnlegum og skriflegum umsögnum sem höfðu komið fyrir nefndina. Þar komu fram gríðarlega margar athugasemdir. Ég fullyrði að jafnvel í nefndinni höfðum við ekki nægilega yfirsýn yfir allar þær athugasemdir sem bárust í þessu ferli öllu saman.

Þetta hefði átt að gefa okkur fullt tilefni til þess að fara mjög rækilega efnislega ofan í þessar athugasemdir og sjá hvort við gætum einfaldað myndina fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem síðan hefði getað unnið heillegan texta á grundvelli upplýsinga og athugasemda sem hefðu borist. Það var ekki hægt. Plagg meiri hluta atvinnuveganefndar var lagt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en þó ekki þannig að þeir sem höfðu staðið að því að skrifa textann hefðu tækifæri til að fylgja honum úr hlaði til að útskýra út frá hverju þeir væru að leggja, heldur var þetta bara kynnt almennt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var öll umfjöllunin.

Í fjárlaganefnd höfðum við til dæmis þann háttinn á að fagnefndir fengu einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins til meðhöndlunar og fjárlaganefnd kallaði síðan þessa fulltrúa, meiri hluta og minni hluta eftir atvikum, á sinn fund þar sem þeir gátu fylgt úr hlaði sjónarmiðum sínum og útskýrt hvað fyrir þeim vakti. Það er ekki gert í hinni nefndinni og fyrir vikið erum við, eins og ég hef áður sagt, komin alveg ótrúlega stutt með þetta mál. Það mætti segja að við værum með vinnsluskjal í höndunum.

Það sem gerir málið síðan enn flóknara er þegar við skoðum þetta og berum saman þau þrjú vinnuskjöl sem fyrir okkur liggja. Við erum í fyrsta lagi að tala um frumvarp stjórnlagaráðsins. Í öðru lagi erum við að tala um frumvarpið sem liggur núna til grundvallar þeirri vinnu sem við erum að vinna. Loks erum við með nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þegar við skoðum frumvarpstextana og greinargerðir þeirra frumvarpa stendur upp úr öllum þeim sem hafa skoðað þessi mál, öllum sérfræðingunum sem við kölluðum til okkar, að greinargerðirnar sem annars vegar fylgja frumvarpi stjórnlagaráðsins og hins vegar því frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi eru ekki tækar sem greinargerðir með frumvörpum. Til að mynda er greinargerðin sem fylgir frumvarpinu sem hér er til umræðu meira og minna þannig útbúin að þar er fjallað um efnismeðhöndlun stjórnlagaráðsins og útskýrðar síðan tilteknar breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu. Í greinargerð frumvarps stjórnlagaráðsins er um að ræða einhverja sagnfræði um það hvernig hlutirnir urðu til, en því fer fjarri að þar sé að finna einhvern leiðarvísi eða túlkun.

Hið sama sjáum við þegar við lesum nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar fáum við ekki þann leiðarvísi sem svona greinargerðir eiga auðvitað að bera með sér. Þetta er nógu alvarlegt, en hitt er enn alvarlegra að við verðum að ganga út frá því að textinn í frumvarpinu sjálfu tali sínu máli. Það er hlutverk dómstóla að dæma út frá lagatextanum og lögskýringargögnin koma þar til viðbótar en almenna reglan hlýtur að vera sú að menn dæmi út frá lagatextanum.

Þá vandast málið. Það sem bent hefur verið á í þessu sambandi er að ekkert af því sem kalla má heildstætt mat á málinu hefur farið fram. Sagt hefur verið fyrr í umræðunni að slíkt heildstætt mat þyrfti að fara fram. Það er alveg rétt. Allir eru sammála um það. En, virðulegi forseti, hvenær í dauðanum á það að fara fram? Eftir að 2. umr. er lokið? Eftir að búið er að gera frumvarpið að lögum? Það liggur að minnsta kosti fyrir að það hefur ekki enn farið fram þegar meginefnisumræðan er á dagskrá. Heildstætt mat á frumvarpinu liggur ekki fyrir. Þetta er ekki eitthvert nöldur í stjórnarandstöðunni, þetta er meginþunginn í gagnrýni allra sérfræðinganna sem hafa komið fyrir hinar aðskiljanlegu nefndir, m.a. atvinnuveganefnd og velferðarnefnd. Umboðsmaður Alþingis sem heyrir beint undir Alþingi bendir líka á að hið heildstæða mat vanti.

Hvaða löggjöf þarf að breyta ef þessi stjórnarskrá verður samþykkt? Vita það einhverjir? Við vorum að breyta upplýsingalöggjöf. Svo sjáum við í umfjöllun hinna færustu sérfræðinga að nýja upplýsingalöggjöfin sé ekki í samræmi við hina áformuðu stjórnarskrá. Það kallar þá á breytingar á upplýsingalöggjöfinni sem menn stærðu sig af og töldu horfa svo mjög til framtíðar. Það er ekki hægt að segja að hún sé á vetur setjandi, hún lifir væntanlega ekki einu sinni fram á vorið ef þetta frumvarp verður niðurstaðan varðandi stjórnarskrána.

Því miður verður að segjast eins og er að við erum hér með óskaplega fátæklegan búning í kringum stjórnarskrána okkar ef þetta verður niðurstaðan.

Ég hlustaði vandlega þegar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar talaði um mikilvægi þess að færa þetta vald til þingnefndanna og gefa öllum þingmönnum kost á einhverri aðkomu að málinu. Ég margspurði hvort raunverulegt mark yrði tekið á því sem þaðan kæmi. Ég held að það sé búið að svara því þannig að það er alveg ljóst að svo er ekki nema í einhverjum tilteknum atriðum. Þess vegna erum við, því miður, stödd í þessum mikla vanda.

Við í minni hluta atvinnuveganefndar fórum mjög rækilega yfir þessi mál eins og auðvitað nefndin öll. Okkar hlutverk var að veita umsögn um 13. gr., þar sem fjallað er um eignarrétt, 25. gr., um atvinnufrelsi, og 34. gr., um náttúruauðlindir. Okkur til leiðsagnar setti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram sex atriði sem hún taldi að við ættum að rannsaka en lokaði ekki á möguleika okkar til að fjalla efnislega um önnur atriði eftir því sem við teldum þörf á. Það má fullyrða að ný eða breytt ákvæði stjórnarskrár eru almennt háðari túlkun en þau ákvæði sem tekin eru óbreytt úr gildandi stjórnarskrá. Við þekkjum það af fyrri reynslu, til dæmis þegar menn settu mannréttindaákvæðið sem þó var býsna mikill samhljómur um sáu ýmsir sig knúna til að láta reyna á réttmæti einstakra atriða. Öryrkjadómurinn frægi er gott dæmi um það. Þegar við sjáum núna að við erum ekki með einstaka kafla stjórnarskrárinnar undir, heldur stjórnarskrána í heild, blasir þessi réttaróvissa strax við.

Við hv. þingmenn erum við þessa vinnu eingöngu bundnir af sannfæringu okkar en auðvitað hvílir líka á okkur, eins og öllum öðrum, aðgæsluskyldan til að vinna að þessu verkefni. Þegar við skoðum þessi mál í því ljósi að við erum gæslumenn stjórnarskrárinnar sem stjórnarskrárgjafar og höfum fengið mjög alvarlegar athugasemdir í mjög veigamiklum atriðum hljótum við að taka þau alvarlega.

Það er alveg rétt sem ýmsir hv. þingmenn hafa sagt hér. Okkur ber engin skylda til að taka mark á sérfræðingum, þeir hafa oft og tíðum haft á röngu að standa, en að skella skollaeyrum við athugasemdum þeirra er aftur á móti býsna alvarlegt mál.

Ég nefndi áðan að eitt af því sem við hefðum fjallað um í þessari vinnu okkar í atvinnuveganefnd væri 13. gr., um eignarrétt, 25. gr., um atvinnufrelsi, og 34. gr., um náttúruauðlindir. Ég ætla aðeins að leyfa mér að fara yfir nokkur atriði sem ég tel að skipti miklu máli í þessu sambandi.

Eignarrétturinn er gríðarlega mikilvægur, hann er heilagur í stjórnarskránni okkar og hefur skipt miklu máli til þess að verja réttindi borgaranna. Eignarrétturinn gegnir líka margvíslegu öðru hlutverki sem lýðræðislegt tæki og er jafnframt mikilvægur í efnahagslegu tilliti. Við þekkjum það frá öðrum löndum þar sem eignarréttarhugmyndin er veikari, þá stendur það bókstaflega efnahagslegum umsvifum fyrir þrifum og þess vegna er gríðarlega mikið mál í öllu þessu tilliti að hugtakið eignarréttur sé eins vel skilgreint og mögulegt er.

Sú ábending kom fram á fundi atvinnuveganefndar að heimild til skerðingar mannréttinda á grundvelli réttinda annarra væri umvafin óvissu og í tilviki eignarréttarins var sérstaklega bent á að ekki væri hægt að útiloka að með heimildinni sem hér væri kveðið á um í frumvarpinu væri opnað á heimild til þess að löggjafinn geti gert einkaaðilum að framkvæma lögmætt eignarnám án þess að almannahagsmunir krefjist þess. Þetta er býsna alvarlegur hlutur og að okkar mati fáheyrð skerðing á eignarréttarvernd í þessari breytingu. Þetta er í raun aðför að friðhelgi eignarréttarins.

Það er óhætt að fullyrða að sú staðreynd að efni 2. mgr. 72. gr. gildandi stjórnarskrár er ekki að finna í frumvarpsgreininni veki mikla furðu. Sem betur fer kaus meiri hlutinn að falla frá upphaflegum hugmyndum sínum. Í umsögn meiri hlutans er rætt um að margir gesta hafi gert athugasemdir við þetta ákvæði. Það er hins vegar ekki nægilega skýrt kveðið að því að fullyrða má að hver einasti gestur sem kom á fund okkar nefndar hafi verið þeirrar skoðunar að það væri rangt að taka þetta skref. Að minnsta kosti sögðu það allir þeir gestir sem voru inntir álits á greininni. Þannig kom fram að rökstuðningur brottfallsins í skýringu stjórnlagaráðs byggði á röngum ályktunum og röngum forsendum. Þó virðist matið á áhrifum brottfallsins að mörgu leyti mjög misvísandi.

Aagot Óskarsdóttir skilaði nefndinni minnisblaði þar sem hún fór ítarlega ofan í forsögu og ástæður þess að ákvæðið var tekið í stjórnarskrá á sínum tíma. Að mati okkar hafa aðstæður ekki breyst og það er enn þörf á þessu ákvæði. Ekki verður séð að þjóðréttarlegar skuldbindingar geri það að verkum að leiðin sé ekki fær.

Það kom nokkuð á óvart þegar við fórum að skoða málið hversu djarft þetta frumvarp var þegar kom að ákvæðum sem lutu að vinnumarkaðnum sjálfum. Hér er ég að tala um 25. gr., um atvinnufrelsið. Það var eftirtektarvert að það var algjör samhljómur í álitum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem fjölluðu um atvinnufrelsisákvæðið í umsögnum sínum til okkar og áréttuðu það á fundum nefndarinnar og einnig á fundum velferðarnefndar sem ég sit í.

Í fyrsta lagi var á það bent að almenn takmörkunarheimild 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins hittir þetta ákvæði mjög illa fyrir. Það vildi enginn útiloka að hún hefði í för með sér meiri skerðingu en kveðið er á um í gildandi stjórnarskrá.

Í annan stað virðast skýringar greinargerðar frumvarpsins gefa bæði óljósa og bjagaða mynd af efni ákvæðisins og inntaki gildandi verndar atvinnuréttar.

Í þriðja lagi eru skýringar lykilhugtaka verulega takmarkaðar og villandi. Þannig virðist litla leiðbeiningu að finna um merkingu orðasambandsins „mannsæmandi vinnuskilyrði“ og engan veginn hægt að átta sig á skyldum ríkisins til að tryggja þau. Hvað eru mannsæmandi vinnuskilyrði? Þetta er fullkomlega matskennt hugtak eins og kom fram, ekki bara í álitum þessara ágætu samtaka heldur nær allra þeirra sem komu fyrir nefndina og fjölluðu um málið, m.a. þeirra sérfræðinga sem við okkur töluðu.

Á nákvæmlega hið sama var bent varðandi orðasambandið „sanngjörn laun“. Það virðist ranglega tengt við annars konar réttindi í skýringum greinargerðarinnar. Mér er mjög minnisstætt þegar á fund nefndarinnar kom lögfræðingur samtaka og vék að þessari hugtakanotkun, „mannsæmandi vinnuskilyrðum“ og „sanngjörnum launum“. Hann tók lítið dæmi sem var svona:

Í morgun klukkan sjö mætti til vinnu sinnar á einni af deildum Landspítalans hjúkrunarfræðingur sem þurfti að axla mikla ábyrgð, meðhöndla og hjúkra og líkna mjög veikum sjúklingi. Tveimur klukkutímum síðar mætti til vinnu sinnar lögfræðingur einhverrar skilanefndarinnar sem hafði um hádegið unnið sér inn laun sem svöruðu til mánaðarlauna hjúkrunarfræðingsins sem ég vitnaði til áðan.

Þetta var efnisleg umfjöllun þess ágæta fulltrúa sem kom fyrir nefndina. Þá vaknar spurningin: Hvar eru sanngjörnu launin? Eru þetta hin sanngjörnu laun hjúkrunarfræðingsins? Eru þetta hin sanngjörnu laun skilanefndarmannsins? Ég geri ráð fyrir að skilanefndarmaðurinn telji sig ekkert ofhaldinn í launum, en frá sjónarhóli hjúkrunarfræðingsins kunna að vakna ýmsar spurningar. Þetta segir okkur að í lagatexta eins og þessum þar sem við erum að tala um stjórnarskrána sjálfa gengur ekki að hafa þessi matskenndu hugtök í grundvallaratriðum þegar við erum að tala um til að mynda vinnumarkaðinn í landinu.

Í fjórða lagi gagnrýndu aðilar vinnumarkaðarins það mikla inngrip í fyrirkomulag íslensks vinnumarkaðar sem þetta ákvæði fæli í sér. Íslenskur vinnumarkaður hefur þróast með nákvæmlega sama hætti og norræni vinnumarkaðurinn. Tiltölulega stórt hlutfall launþega á Íslandi starfar innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar. Hún semur fyrir hönd umbjóðenda sinna um kaup og kjör, hin „sanngjörnu“ laun og hin „mannsæmandi“ vinnuskilyrði að svo miklu leyti sem löggjöfin tekur ekki til þeirra þátta. Þetta hefur þróast um áratugaskeið. Um þetta snerist verkalýðsbaráttan á fyrri hluta 20. aldar og virkir þátttakendur í þeirri umræðu og þeim átökum voru fulltrúar sem sátu í forverum þeirra stjórnmálaflokka sem núna bera þetta mál fram á Alþingi.

Þegar frumvarp til stjórnarskipunarlaga er hins vegar skoðað er það mat þeirra sem velta þessu fyrir sér, m.a. aðila vinnumarkaðarins, að það megi túlka þau ákvæði þannig að horfið sé frá þessu norræna módeli. Og í hvaða átt? Jú, þá átt sem þekkist í Bandaríkjunum. Sá vinnumarkaður hefur mjög verið gagnrýndur, t.d. af ýmsum þeim sem hafa talað fyrir hinu norræna módeli.

Í áliti Samtaka atvinnulífsins sem velferðarnefnd Alþingis barst undir lokin víkja þau sérstaklega að þessu og hafa af því mjög miklar áhyggjur. Þau vekja athygli á því að með því breytta orðalagi sem þetta ákvæði felur í sér kunni að verða eðlisbreyting á réttinum til frjálsra kjarasamninga og þau telja mjög mikilvægt að í ákvæðinu verði mælt fyrir um að í lögum sé kveðið á um rétt manna til að semja um starfskjör sín. Í frumvarpinu er orðalagið hins vegar þannig að öllum skuli tryggður réttur til að semja um starfskjör sín og það orðalag má skilja þannig að verið sé að flytja kjarasamningaréttinn frá stéttarfélögum og gera hann einstaklingsbundinn sem þó er sagt í greinargerð með frumvarpinu frá stjórnlagaráði að hafi ekki verið tilgangurinn og er síðan í andstöðu við vilja aðila vinnumarkaðarins.

Það kann að vera sjónarmið að hið norræna módel sé ekki mjög gott, það sé miklu eðlilegra að færa þennan rétt frá verkalýðshreyfingunum og gera það líkara því sem við þekkjum í Bandaríkjunum. Við getum þá skoðað reynsluna og borið félagsleg kjör manna í Bandaríkjunum saman við félagsleg kjör manna á Norðurlöndunum. Við getum borið saman launaþróun í einstökum hópum, stöðu láglaunafólks í Bandaríkjunum og stöðu láglaunafólks á Norðurlöndunum. Við getum rifjað upp ríkisstjórn sem einu sinni var sett á laggirnar og kallaði sig norræna velferðarstjórn. Við getum velt þessu fyrir okkur efnislega. Við ættum kannski að gera það.

Ef minnsta hætta er á að það kerfi vinnumarkaðarins sem hefur tekið áratugi að þróast og kostaði átök á sínum tíma verði veikt eða því kollvarpað er það að minnsta kosti einnar messu virði að leita frekari umsagna. Nú veit ég að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir bara: Þetta er ekki svona. Það þýðir ekki þetta.

Stjórnlagaráðsmenn segja: Ja, okkar meining er ekki sú að breyta vinnumarkaðnum.

En hafa menn þá engar áhyggjur? Aðilar vinnumarkaðarins sem hugsa um þessa hluti þegar þeir vakna og hætta ekki fyrr en þeir fara að sofa hafa miklar efasemdir um þetta mál.

Þetta er enn eitt dæmið um það sem ég sagði áðan, að málið er óþroskað. Það er komið alveg ótrúlega stutt. Hefði ekki verið þörf á því að róa fyrir allar víkur og ganga úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll að það sem menn meina í greinargerð segi þeir í frumvarpstextanum? Það hefur ekki verið gert og þess vegna er alveg augljóst, eins og var til að mynda bent á í einhverjum umsagnanna, að einhver mun láta reyna á þennan rétt. Ég er ekki að segja að Samtök atvinnulífsins geri það. Mér er til efs að verkalýðshreyfingin muni gera það, en það kunna að vera ýmsir aðrir. Það búa rúmlega 300 þús. manns í landinu. Einhverjum gæti dottið í hug að láta reyna á þennan rétt og þá væri athyglisvert að velta fyrir sér hvað þetta þýðir, það ákvæði sem ég geri hér að umtalsefni.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gerast dómarinn í þessu. Ég deili hér bara miklum áhyggjum af málinu. Mér finnst menn ekki hafa svarað fullnægjandi í raun og veru hvort hér sé verið að gera grundvallarbreytingu. Mér nægja í sjálfu sér ekki einhverjir svardagar ef texti frumvarpsins sjálfs er þannig að þeir sem gleggst þekkja til í þessum málaflokki skilja hann öðruvísi en þeir ágætu hv. þingmenn sem skipa meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hafa skrifað texta um þessa hluti eða kunna að hafa einhverjar aðrar skoðanir í þessum efnum. Þá ber okkur einfaldlega að leita af okkur allan grun og komast að hinu sanna um þetta mál.

Það er dálítið farið að halla í ræðutíma minn og ég er ekki kominn að því sem var stærsta umfjöllunarefnið í atvinnuveganefnd, 34. gr. sem oft hefur verið kennd við yfirlýsinguna um þjóðareign á náttúruauðlindum.

Þar er að mörgu að hyggja. Mjög oft hafa menn glímt við það að komast að niðurstöðu í þessum efnum. Það sem ég held að trufli þetta mál dálítið mikið er að þegar verið er að fjalla um þetta ákvæði eru menn alltaf með annað augað á umræðunni um fiskveiðistjórnarmál. Þetta mál er hins vegar ekki bara bundið við fiskveiðiauðlindina. Við verðum að horfa á þetta í miklu víðara samhengi við allar mögulegar aðrar náttúruauðlindir sem við teljum að ríkið eða þjóðin eigi í einhverjum skilningi sem menn eru að reyna að koma í orð. Við erum dálítið bundin í umræðunni um fiskveiðistjórnarmál sem hefur tekið mikinn tíma, orku og athygli og það hefur að mínu mati komið mikið niður á frumvarpstextanum sjálfum.

Í fyrsta lagi er mjög umdeilt hvað hugtakið „þjóðareign“ þýðir. Sá merki fræðimaður Sigurður Líndal telur það merkingarlaust, að í raun og veru þýði þetta hugtak ekki neitt, það geti ekki verið andlag einhverrar eignar og þess vegna sé til tiltölulega lítils að velta þessu upp með þeim hætti sem þarna er gert. Þetta er ekki óumdeilt sjónarmið hjá þessum mæta fræðimanni en engu að síður nauðsynlegt að reyna að komast að því hvort við getum notað eitthvert annað hugtak en þjóðareign. Getur hugtakið „ríkiseign“ átt við? Það er ekki alveg augljóst að það nái utan um það sem menn eru hér að velta fyrir sér.

Eignarréttarhugtak í þessum efnum þar sem sagt er að eitthvað sé þjóðareign — eign lýtur viðskiptum og felur í sér verðmæti en engu að síður er hér sagt að þessa þjóðareign megi láta af hendi eða veðsetja með einhverjum hætti, að enginn geti fengið réttindi þeim tengd til eignar eða varanlegra afnota og aldrei megi selja þær eða veðsetja eins og segir í þessu frumvarpi.

Í raun má segja sem svo að hugtakið „eign“ í þessum skilningi sé ekki eign. Andlag eignarinnar í öllum venjulegum skilningi er einmitt það að menn geta selt hana og veðsett því að hún er eign þeirra. Þarna erum við að reyna að búa til nýtt hugtak sem ég geri út af fyrir sig ekki athugasemd við að við reynum að skilgreina en þá vaknar strax spurningin um hugtakanotkunina. Þetta er það fyrsta.

Þegar Björg Thorarensen prófessor dregur saman í fáeinum punktum það sem hún telur athugunarefni varðandi þetta mál mælir hún með því að, með leyfi virðulegs forseta, „leitast verði við að ná betur kjarnanum að baki reglunni um náttúruauðlindir í þjóðareign og gera ákvæðið hnitmiðaðra. Þar sem aðstæður og viðhorf geta breyst í tímans rás er ekki mælt með að náttúruauðlindir í þjóðareign séu taldar upp í ákvæðinu, heldur verði það gert í almennum lögum. Auk þess er óljóst hvort ákvæðið nær í heild sinni til hvers konar náttúrugæða í sinni víðtækustu merkingu“.

Þetta er alveg hárrétt. Ég held að þetta sýni það og sanni að menn eru dálítið mikið staddir í núinu og reyni að telja upp eftir minni það sem maður gæti ímyndað sér að gætu verið þær náttúruauðlindir sem mögulega féllu undir það sem menn ætla sér að kalla þjóðareign sem er þetta óskýra hugtak og mótsagnakennda á margan hátt sem ég fór hérna aðeins yfir. Þess vegna tek ég undir með Björgu Thorarensen prófessor í þessum efnum.

Í annan stað dregur hún þetta saman og segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Á sama tíma er óljóst hvort í ákvæðinu felst sjálfstæð heimild til að breyta þeim auðlindum sem taldar eru í ákvæðinu og eru ekki háðar einkaeignarrétti í þjóðareign eða hvort þær verða lýstar þjóðareign með almennum lögum. Mælt er með því síðarnefnda, þ.e. að ákvæðið veiti löggjafanum fyrst og fremst heimildir til lagasetningar um efnið, sem sækir þá stoð í stjórnarskrárákvæðið og útfærir nánar markmið þess.“

Síðan er frekari umfjöllun um þetta.

Fleiri ábendingar hafa komið fram, til dæmis er vakin athygli á því í umsögn sem Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, lét okkur í té að ýmislegt í frumvarpinu stangist mjög á við gildandi lög um stjórn fiskveiða þar sem því er lýst yfir að sameign þjóðarinnar á nytjastofnum Íslands sé til staðar, þ.e. að þjóðin eigi nytjastofnana á Íslandsmiðum. Í þessu frumvarpi er hins vegar talað um að þessi þjóðareign taki til nytjastofna og annarra auðlinda hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu utan netlaga. Og þá spyr maður: Er verið að þrengja þetta hugtak miðað við það sem á við í gildandi lögum? Kallar þetta á sérstaka breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem lýtur að þessu?

Slíkt frumvarp var að detta inn á borð okkar þingmanna. Þetta er dæmi um það sem þarf að rýna mjög rækilega þegar farið er yfir þessi mál, þegar hið heildstæða og óhjákvæmilega mat verður lagt á þetta frumvarp og þegar menn fara að átta sig á því á hvaða lagabreytingar frumvarpið kallar.

Ég hef aðeins tæpt á örfáum atriðum sem hefur rekið á fjörur okkar í atvinnuveganefnd og velferðarnefnd. Ég á heilmikið eftir. Þetta sýnir okkur og sannar í þessum efnum að í þeim atriðum einum saman sem ég hef nefnt hérna er gríðarlega mikið verk óunnið og kallar þess vegna á það, eins og ég sagði áðan, að þetta mál verði unnið betur og með öðrum hætti. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við erum komin í miklar ógöngur (Forseti hringir.) með málið og við verðum öll að sameinast um að leysa úr þessum vanda.