141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Hv. þingmaður fór yfir mjög mörg atriði og vakti athygli á því að þeim hefði ekki verið svarað. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara efnislega yfir ræðu hennar að öðru leyti en þessi ræða eins og margar aðrar sem hafa verið fluttar í dag vekur athygli okkar á því hvað við erum sárlega og sorglega komin skammt áleiðis við þá vinnu sem við eigum að framkvæma varðandi sjálfa stjórnarskrána.

Eins og við vitum hefur verið talsverður aðdragandi að þessu máli og ýmsir komið að því. Þjóðfundurinn á sínum tíma, stjórnlagaráðið á sínum tíma, sérfræðinganefnd sem vann þar í millitíðinni, síðan sérfræðingahópur sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðsins og nú er frumvarpið komið hingað. Það er búið að senda málið til umsagnar í ótal nefndum og öllum nefndum Alþingis og þær hafa skilað mismunandi álitum. Í öllum tilvikum hafa komið fram athugasemdir mjög margra sérfræðinga sem allar lúta að hinu sama.

Niðurstaða sérfræðinganna er sú að þetta mál sé mjög ófullburða og mjög mikið þurfi að gerast til að hægt sé að segja að það sé í raun tækt til atkvæðagreiðslu, að við getum tekið afstöðu til málsins eins og það liggur fyrir núna. Þess vegna er svo mikilvægt að við áttum okkur á hver staðan er. Ég held að við eigum ekki að fara í skotgrafir um það hverjum sé um að kenna. Þetta er einfaldlega staða málsins.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér að málið geti haldið áfram Það er augljóst í mínum huga og blasir við öllum sem skoða frumvarpið að við getum ekki afgreitt það eins og það liggur fyrir núna, það hlýtur öllum að vera ljóst að er algjörlega ótæk aðferð. Við verðum að finna einhverja aðra lendingu. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hún var einmitt í lok ræðu sinnar að víkja að þessu, hvernig hún sjái fyrir sér að málið geti haldið áfram.