141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

undanþága fyrir sorpbrennsluna á Klaustri.

[15:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram á svipuðum nótum og umræðan var á áðan. Á flokksþingi okkar framsóknarmanna um helgina fjölluðum við um atvinnu- og byggðamál í ljósi þess að allar byggðir landsins eigi þann möguleika að geta vaxið og eflst og hvað ríkið geri til að koma til móts við það. Því er kannski rétt að spyrja hæstv. ráðherra fyrst á hvaða vakt ríkisstjórnin er gagnvart þessum svæðum og á hvaða vakt ríkisstjórnin hefur verið síðustu fjögur árin.

Sorpbrennslan á Kirkjubæjarklaustri er undirstaða þess að hita upp íþróttamiðstöðina og sundlaugina og nú hefur hún verið lokuð í tvo mánuði, síðan 12. desember, þ.e. ekkert sund, engin íþróttakennsla, engin aðstaða fyrir fólkið í samfélaginu til að stunda þar líkamsrækt. Þetta er á vakt hæstv. umhverfisráðherra vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra virðist ekki finna þær skapandi lausnir sem hún þó lagði til áðan að yrði beitt, þ.e. að breyta eigin reglugerð eða í það minnsta veita það langan aðdraganda að breytingunni að þetta litla sveitarfélag geti uppfyllt þær skyldur að kaupa nýja tegund af brennsluofni. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að það hafi verið góð niðurstaða í kjölfar á einmitt boðaföllum vegna umræðunnar um brennslu sorps að menn hættu brennslu og færu að urða, einfaldlega vegna þess að þetta er ákaflega skynsamleg leið ef það er hægt að tryggja að mengunin sé eins lítil og mögulegt er, og helst engin.

Því spyr ég hæstv. ráðherra, og ítreka, hvort ekki standi til að breyta þessari reglugerð eða lengja aðlögunartíma sveitarfélagsins til að það fái möguleika (Forseti hringir.) til lengri framtíðar að standa undir lögmætri sorphirðu og sorpeyðingu í landinu.