141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

undanþága fyrir sorpbrennsluna á Klaustri.

[15:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við breytinguna á umræddri reglugerð þurftu fleiri sveitarfélög en Skaftárhreppur að bregðast við á sínum tíma, m.a. Vestmannaeyjabær sem er í kjördæmi hv. þingmanns og þurfti að kosta nokkru til að koma til móts við ný ákvæði reglugerðarinnar. Hann nýtti vel þann tíma sem gafst til þess. Það var að minnsta kosti eitt ár sem sveitarfélögin höfðu til að bregðast við þessari breytingu. Þau sveitarfélög sem hafa farið að lögum og reglum og þessu breytta regluverki þurfa væntanlega að geta treyst því að eitthvert jafnræði gildi við stöðu sveitarfélaganna hvað þetta varðar.

Hv. þingmaður kom með ögn breiðari spurningu, þ.e. um það hvernig ríkið kemur að byggðamálunum í heild. Ég get deilt því með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að styrkja stöðu landsbyggðarinnar og sveitarfélaganna. Ég tel að sú stefnumótun sem núverandi ríkisstjórn hófst handa við, Sóknaráætlun 20/20, í nánu samstarfi við sveitarfélögin og landshlutasamtökin, á breiðum grunni, hafi síðan endurspeglast í mun sterkari stöðu sveitarfélaganna þar sem þau hafa sjálf sammælst um þau sóknarfæri sem væru fyrir hendi í hverjum landshluta fyrir sig. Þar átti Skaftárhreppur sína aðkomu eins og aðrir og afurð þeirrar samvinnu er ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Við munum hefjast handa við að byggja hana á þessu ári og er hún gríðarlega mikilvægt atvinnu- og sóknarfæri fyrir þetta sveitarfélag sem hefur sannarlega verið í vörn.

Mikilvægasta viðfangsefnið að því er varðar sorpmálin er að auka flokkun og auðvitað draga úr notkun á umbúðum. Það (Forseti hringir.) þurfa allir að huga að því.