141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

hagvöxtur.

[15:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa komið fram vísbendingar um að draga muni úr hagvexti svo um munar frá þeim spám sem birtust hér fyrir áramót. Hagvöxtur verður merkjanlega minni en til dæmis var gert ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins og ég vil því beina fyrirspurn til hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Í ljósi þess að hagvöxturinn virðist ætla að verða umtalsvert minni en ætlað var spyr ég: Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að mæta þessum fyrirsjáanlega samdrætti í hagvexti?

Hvert einasta prósentustig í hagvexti skiptir gríðarlega miklu máli. Það skiptir máli þegar kemur að því að fjármagna og standa undir heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu, launum í landinu, möguleikum okkar til þess að leiðrétta skuldir heimilanna og takast á við fjárhagsvanda þeirra. Hvert einasta prósentustig skiptir lykilmáli.

Ég geri mér grein fyrir því að það hefur árað verr á erlendum mörkuðum en menn ætluðu en það leysir ríkisstjórnina ekki undan því að grípa til aðgerða, kynna þær í þinginu og sýna okkur, og allri þjóðinni, hvernig ríkisstjórnin hyggist bregðast við. Við höfum gert miklar athugasemdir við það hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram og aðgerðir hennar gagnvart atvinnulífinu í landinu, gagnvart sjávarútvegi og stóriðju, og ferðaþjónustunni þar sem hefur verið búin til óvissa aftur og aftur sem hefur gert það að verkum að dregið hefur úr vexti fjárfestingarinnar.

Virðulegur forseti. Við sjáum í hvað stefnir að mati Seðlabankans varðandi atvinnuvegafjárfestinguna á þessu ári. Vöxtur hennar verður jafnvel minni (Forseti hringir.) en áætlað var, kannski minni en (Forseti hringir.) í fyrra.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin komi hreint fram og segi hvernig hún ætlar sér að bregðast við.