141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

hagvöxtur.

[15:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að það sem hæstv. ráðherra taldi upp varðandi aðgerðir hefur legið fyrir og liggur fyrir í þeim spám sem við höfum þegar fyrir augunum. Þetta eru ekki aðgerðir sem er verið að grípa til núna, þetta liggur fyrir og er þegar í hagvaxtarspánum. Ég fagna auðvitað því sem hæstv. ráðherra sagði hér síðast um samstarf við útflytjendur varðandi markaðsátak. Það er í sjálfu sér ágætt.

Á sama tíma leggur þessi hæstv. ráðherra fram frumvarp í þinginu sem á eftir að valda verulegum skaða í öllum sjávarútveginum.

Virðulegi forseti. Vandinn með þessa ríkisstjórn er sá að í hverju málinu á fætur öðru hefur hún komið fram með tillögur og frumvörp sem hafa grafið undan trausti atvinnuveganna á henni, þ.e. þeirra sem þar starfa, í skattamálum hvað varðar stóriðjuna í landinu og orkufrekan iðnað, í skattamálum hvað varðar ferðaþjónustuna. Það þarf ekki að fara yfir þær árásir sem hafa verið gerðar á sjávarútveginn. Þetta hefur valdið því, virðulegi forseti, að þau tækifæri sem voru hér á síðasta og þarsíðasta ári (Forseti hringir.) voru ekki nýtt vegna stjórnarstefnunnar. Enn og aftur hlýt ég að kalla eftir þessu, virðulegi forseti. Í nafni heimilanna og velferðarþjónustunnar hlýt ég að kalla eftir því hvernig (Forseti hringir.) ríkisstjórnin ætlar sér að bregðast við. Það er ekki nóg að benda á að það séu vandamál í útlöndum, við verðum að bregðast við og það var ekki nóg sem kom fram hjá hæstv. ráðherra.