141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

málefni heimilanna.

[15:31]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég óska framsóknarmönnum til hamingju með flokksþing sitt. Það er ánægjulegt að þeir koma vígreifir og ánægðir af því þingi, en þeir setja kannski ekki dagskrána fyrir allt stjórnmálalífið í landinu þó að þeir hafi komist að sínum niðurstöðum. Aðrir flokkar eiga eftir að halda landsfundi og skerpa áherslur sínar.

Þegar er auðvitað mikið að gert, t.d. í núverandi fjárlögum, sem menn hafa kannski ekki rætt mikið um, eins og það að hækka barnabætur um 2,5 milljarða kr. og endurreisa fæðingarorlofið og halda áfram mjög háum fjárhæðum í vaxtabótakerfinu. Allt er þetta stuðningur við fjölskyldur og heimili í landinu og ekki síst tekjulægri ungar barnafjölskyldur.

Ég tel að hugmyndir Alþýðusambandsins sem eru auðvitað vel þekktar séu áhugaverðar og rétt og skylt að ræða þær við Alþýðusambandið. Þetta eru sumpart þær hugmyndir sem var lengi rætt um hér að taka upp að danskri fyrirmynd en auðvitað er danskt efnahagslíf ekki það sama og hið íslenska þannig að þarf að skoða hvernig það samrýmist öðrum aðstæðum hér.

Nýlega kom út skýrsla um þann möguleika að bjóða upp á svokölluð þaksett verðtryggð lán sem yrðu viðbótarvalkostur í þessari flóru, einhvers staðar mitt á milli óverðtryggðra og verðtryggðra lána, þ.e. menn gætu tryggt sig fyrir verðbólgukúf með því að greiða tiltekið vaxtaálag eða tiltekið tryggingarálag ofan á verðtryggð lán sem eru varin fyrir hækkunum umfram t.d. 4%. Þetta og margar fleiri áhugaverðar hugmyndir eru í þessari deiglu.

Nefnd hefur verið að störfum undanfarna tvo til þrjá mánuði sem ég veit að hv. þingmaður hefur haft áhuga á að fylgjast með á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og lagt drög að nýrri og heildstæðri löggjöf um fasteignaveðlán eða húsnæðislán. Það er orðin niðurstaða okkar að vænlegast sé að setja sérlög um húsnæðislán til einstaklinga sem að hluta til tækju upp gildandi ákvæði úr lögum um neytendalán en settu síðan sérákvæði sem giltu um lán með veði í íbúðarhúsnæði landsmanna. Þar væri hægt að taka á ýmsum af þeim (Forseti hringir.) álitamálum og vandamálum sem menn hafa meðal annars rætt í þessu samhengi eins og að tryggja það í slíkri löggjöf að alltaf væri hægt að gera grein fyrir heildarlántökukostnaði lána sem tekin væru með veði í íbúðarhúsnæði.