141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

málefni heimilanna.

[15:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eru náttúrlega íslensk heimili sem kalla eftir þessari forgangsröðun. Þau eru að kalla eftir lausnum hvað varðar skuldavanda þeirra, þau eru að kalla eftir viðbrögðum til að tryggja það að við getum kannski losnað við þann titil að vera Evrópumeistarar í vanskilum eins og staðan er hér.

Hæstv. ráðherra nefnir að vinna sé í gangi varðandi sérlög um fasteignalán og ég fagna því. Ég vona að ráðherrann horfi þá einmitt til ályktana okkar framsóknarmanna og tillagnanna sem koma frá ASÍ. Ég vonast til þess að ráðherrann taki skrefið frá eigin stefnu frá þeim tíma þegar hann var í ráðuneyti fjármála en þá kom fram í skýrslu um stefnu í lánamálum að litið væri á verðtryggð lán námsmanna sem einhvers konar tryggingu ríkisins gegn verðbólgu. Það var sláandi að lesa að fátækir námsmenn ættu (Forseti hringir.) að tryggja ríkið gegn verðbólgu og eignir endurspegla kannski það sem menn hafa talað hér um að þeir sem eru ríkir eiga líka að geta keypt sig frá verðbólgunni.