141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samskipti við FBI.

[15:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta mál er frekar einfalt í mínu augum. Ekkert lögreglulið kemur til Íslands og hefur yfirheyrslur yfir íslenskum borgara án þess að fyrir liggi skilgreind og rétt fram komin beiðni um réttaraðstoð. Ég tel eins og þetta mál var lagt upp fyrir mér að slík beiðni hafi ekki legið fyrir. Ég tel algerlega af og frá að líta svo á að heimsókn þeirra hingað sennilega sex vikum fyrr með leyfi íslenskra yfirvalda til að kanna öryggisvarnir í tölvukerfum hafi náð yfir það að koma síðan aftur nokkrum vikum síðar og hefja yfirheyrslur yfir einstakling sem virtust beinast fyrst og fremst að Wikileaks. Ef menn vilja rannsaka Wikileaks verður beiðnin að koma fram með réttum hætti og þá verður hún metin að skilgreindum yfirvöldum.

Að því er varðaði fyrstu spurningu hv. þingmanns þá er það ekki svo að slíkar beiðnir komi inn á borð utanríkisráðherra. Eins og ég hef greint frá í fjölmiðlum þá bar málið þannig að að hæstv. innanríkisráðherra hafði samband við mig, leitaði ráða hjá mér, ég ræddi við lögfræðinga mína og niðurstaðan var eindregin að þar sem við höfðum ekki vitneskju um það eftir samtal mitt við hæstv. innanríkisráðherra að fyrir lægi nein skilgreind beiðni um réttaraðstoð þá töldum við af og frá að slíkar yfirheyrslur færu fram yfir manni, meira að segja að því er okkur var sagt þá án þess að íslenskir fulltrúar væru viðstaddir. Við töldum að hagsmunir hans kynnu að vera í uppnámi. Það var ástæðan fyrir því að ég gaf hæstv. innanríkisráðherra þessi ráð. Ég tel að hann hafi brugðist hárrétt við. Eins og ég hef sagt er það algerlega út úr öllu korti eins og þessu máli hefur verið lýst, m.a. í minnisblaði frá því embætti sem hv. þingmaður veifaði hér áðan, að sú beiðni sem kom að mig minnir í júní hafi síðan náð yfir þennan atburð í ágúst.