141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samskipti við FBI.

[15:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er sem sagt staðfest hér að þetta er ekki eðlileg málsmeðferð. Þetta er í rauninni undantekning frá þeirri meginreglu sem við sjáum alla jafna. Ég hélt að þegar ráðuneyti, í þessu tilviki innanríkisráðuneyti, og undirstofnanir ættu í samskiptum við erlendar löggæslustofnanir væru önnur ráðuneyti ekki að skipta sér af því og efuðust allra síst um hvort rétt væri hjá ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra eða fleirum að fara í rannsóknir. Þetta munum við fara yfir í nefnd á morgun og fá ástæður þeirra fyrir slíkri beiðni.

Hitt er síðan það sem ég vil draga aftur fram hér því að ég gerði það rétt áðan í lok fyrirspurnar minnar. Það eru afskipti og inngrip hæstv. utanríkisráðherra sem voru ekki til þess fallin að tryggja réttarhagsmuni, aðstoð og hagsmuni þess einstaklings sem um ræðir heldur urðu miklu heldur til þess að rýra hagsmuni hans því að íslensk lög eru miklu skýrari hvað varðar að löggæslan, þeir sem yfirheyra hverju sinni, þurfi að gæta hagsmuna þess sem er yfirheyrður. Hins vegar er löggjöf í Bandaríkjunum með allt öðrum hætti (Forseti hringir.) því allt sem einstaklingar kunna að segja í yfirheyrslum er hægt að nota gegn þeim síðar meir í Bandaríkjunum. Þess vegna er mikill munur á íslenskum lögum og bandarískum. (Forseti hringir.) Ég tel að með inngripi utanríkisráðherra hafi hagsmunir þessa einstaklings frekar verið fyrir borð bornir en hitt. (Gripið fram í: Nei, …)