141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:49]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Orkustofnun veitti þessi tvö sérleyfi á Drekasvæðinu 4. janúar síðastliðinn eins og kunnugt er. Petoro Iceland AS, þ.e. útibú norska ríkisolíufélagsins, er leyfishafi í báðum leyfunum fyrir hönd norska ríkisins samkvæmt ákvörðun Stórþingsins frá 18. desember síðastliðnum. Það er til samræmis við samnings milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen og bókun við áðurnefndan samning frá því í nóvember 2008.

Annað leyfið fékk Faroe Petroleum Norge AS sem er rekstraraðili með 67,5% hlut, Íslenskt kolvetni er þar með 7,5% hlut og áðurnefnt Petoro Iceland með 25%. Leyfið er til sjö ára og samkvæmt rannsóknaráætlun leyfisins mun fara fram greining á fyrirliggjandi gögnum, svo sem jarðeðlisfræðilegar mælingar, fyrstu fjögur ár leyfisins.

Hitt leyfið er til Valiant Petroleum ehf. sem rekstraraðila með 56,25% hlut, Kolvetnis ehf. með 18,75% hlut og áðurnefnt Petoro Iceland AS með 25% hlut. Það leyfi er til tíu ára og samkvæmt rannsóknaráætlun leyfisins mun fara fram greining á fyrirliggjandi gögnum svo og jarðeðlisfræðilegar mælingar fyrstu sjö ár leyfisins.

Leyfin eru veitt á grundvelli ákvæða laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum og reglugerð nr. 884/2011 ásamt upplýsingum í sérleyfisumsókn og öðrum upplýsingum frá umsækjendum.

Orkustofnun leitaði umsagna bæði umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, í samræmi við ákvæði laga þar um og mat síðan umsagnirnar með tilliti til framkominna umsókna og þeirra rannsóknaráætlana sem þar um ræðir. Í endanlegri útgáfu leyfanna voru skilmálar og fyrirvarar teknir inn í leyfin með tilliti til þeirra umsagna og ábendinga sem þar komu fram, m.a. frá umhverfisráðuneytinu. Stofnunin kannaði auðvitað ítarlega tæknilega og jarðfræðilega getu umsækjenda til að ráðast í þetta viðfangsefni. Þá kannaði hún fjárhagslega getu móðurfyrirtækja umsækjenda svo tryggt væri að umsækjendur hefðu bæði fjárhagslegt bolmagn og burði að öðru leyti til að sinna verkefninu og ekki síður til að gæta viðhlítandi umhverfis- og öryggisþátta. Reyndar bárust þrjár gildar umsóknir en þriðju umsókninni var ekki tekið að þessu sinni þar sem hún uppfyllti ekki við mat kröfur Orkustofnunar, en sá aðili hefur tíma fram á vorið til að skila inn frekari gögnum eða fá til samstarfs við sig aðila sem Orkustofnun getur metið gildan.

Það er Orkustofnun sem fer með framkvæmd þessara mála og eftirlit með sérleyfum en fjölmargir aðilar koma að því starfi. Það er ástæða til að leggja áherslu á það. Orkustofnun starfrækir og leiðir samráðshóp fjölmargra aðila. Í honum sitja 11 fulltrúar og þeir eru skipaðir af Mannvirkjastofnun, Flugmálastjórn Íslands, Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins. Það er meðal annars hlutverk þessa samráðshóps að tryggja upplýsingaskipti og samræma opinbert eftirlit vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland.

Sá hópur hefur reyndar verið starfandi síðan 2009 og fundar reglulega, síðast 29. janúar síðastliðinn. Það er eindreginn ásetningur þeirra sem að þessu starfa að nota tímann vel sem gefst næstu árin til að undirbúa það sem í vændum er og þá fyrst og fremst væntanlega frá og með eða eftir árið 2017 þegar komið gæti að næstu tímamótum í þeim efnum. Þar á meðal verður einnig leitað eftir öflugu samstarfi við norska sérfræðiaðila í þessum greinum.

Hv. þingmaður spyr hver séu markmið olíuleitar sem leyfi hafa verið gefin til. Markmiðin eru að sjálfsögðu þau hin sömu og hafa verið síðastliðin 15–20 ár sem málið hefur þroskast í meðförum Alþingis og stjórnvalda í formi ályktana og lagasetningar á Alþingi og hér er auðvitað framfylgt þeirri stefnu sem Alþingi og stjórnvöld hafa mótað og bundið í lög. Markmiðið er með öðrum orðum að kanna hvort líkur séu á að olíu eða gas sé að finna í vinnanlegu magni á íslenska landgrunninum.

Hver er kostnaður eða ávinningur ríkissjóðs? Leyfishafar bera sjálfir kostnaðinn af rannsóknunum, þar með talið eftirlitskostnað íslenskra stjórnvalda þannig að sá kostnaður er ekki til staðar af hálfu Íslands nema hvað stjórnsýslu varðar og ávinningur ríkissjóðs er að sama skapi ekki mikill þótt leyfishafar greiði vissulega svæðis- og leyfisgjöld.

Hver er staða þeirra sem hafa fengið leyfin? Þeir eru handhafar sérleyfa fyrir þessi afmörkuðu svæði, stóðust mat í þeim efnum. (Forseti hringir.) Hvert er framhaldið? Það er auðvitað undir sérleyfishöfunum komið. Þeir hafa forgangsrétt komi til vinnslu í framhaldi rannsókna. Sá forgangsréttur er hins vegar skýrt háður leyfi Orkustofnunar að uppfylltum skilyrðum sem getið er um í leyfunum, m.a. um mat á umhverfisáhrifum og uppfylltum kröfum um öryggi við vinnsluna, þ.e. íslensk stjórnvöld hafa það í sínum höndum að setja allar þær kröfur í þeim efnum varðandi öryggi, umhverfisþætti og áhættu sem talið er nauðsynlegt til að tryggja að ekkert fari úrskeiðis. Ég tel að ég hafi svarað þessu með efnahagslega ávinninginn, hann er takmarkaður og (Forseti hringir.) ber ekki að gera of mikið úr honum á því rannsóknartímabili sem nú fer í hönd næstu fjögur til fimm árin eða svo.