141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að efna til umræðunnar sem er einhver skemmtilegasta umræða íslenskra stjórnmála um þessar mundir, enda eru vísbendingarnar sem við höfum séð um mögulega olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu mjög jákvæðar. Hæstv. ráðherra sagði reyndar að markmiðið með samningum um olíuleit væri að kanna hvort líkur væru á að olíu eða gas sé að finna á svæðinu. Það liggur fyrir að olíu og gas er að finna á svæðinu. Spurningin er hvort það finnist í vinnanlegum lindum. Menn vonast til að sú verði raunin. Markmiðið hlýtur þá að vera, ef slíkar lindir finnast, að fara að dæla upp olíunni og gasinu og það hlýtur að vera hægt að viðurkenna þar sem það stendur á forsíðu samninganna sem voru gerðir um leitina að samið sé um leit og vinnslu. Það væri að sjálfsögðu fráleitt fyrir þessi fyrirtæki að leggja í þann mikla kostnað sem fylgir leitinni ef því fylgdi ekki vinnsla ef leitin yrði árangursrík, sem hún vonandi verður.

Jafnvel þótt ekki finnist vinnanlegar lindir á Drekasvæðinu er mikilvægt að nýta ferlið til að byggja upp þekkingu á olíuleit og -vinnslu og gasvinnslu innan lands vegna þess að allar líkur eru á því að það verði umtalsverð olíu- og gasvinnsla við Grænland og líklega við Færeyjar líka. Þau lönd eru mjög áhugasöm um að leita eftir þjónustu og stuðningi í þeim efnum og öðrum hér á Íslandi fremur en að þurfa að leita til Danmerkur eða Skotlands svo dæmi séu nefnd. Því er mikill fengur í því að nýta allt ferlið til að byggja upp þekkingu svo Ísland geti orðið þátttakandi í olíuleit og vinnslu, ekki bara í lögsögu okkar heldur líka víðar.