141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:00]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég held að sé ágætt að við fáum á þessu stigi. Það er rétt hjá frummælanda að búið er að ákveða að ef olía finnst og í nýtanlegu magni verður farið í vinnslu. Þessi leyfi fela það í sér. En það er kannski rangt hjá honum að olíuleit og -vinnsla sé ekki umdeild í öðrum löndum. Það er nefnilega hugsandi umhverfissinnað fólk í öllum löndum. Það er gríðarleg ákvörðun að fara í olíuleit og vinnslu. Ég óttast að ef það er eitthvað sem okkur hugnast ekki verði erfitt að snúa af þeirri leið.

Ég sakna þess að lýðræðisleg umræða hafi farið fram um þessi mál, hvað nákvæmlega felst í þessu, hvernig þetta fellur að öðru sem við erum að gera, sáttmálum, umhverfissáttmálum sem við höfum undirritað, öryggi og áhættu sem felst í þessu. Okkur vantar slíkar upplýsingar og umræðu um þessi mál. Við þurfum að taka þá umræðu í samfélaginu. Á meðan umræðuna skortir og almenningur er ekki upplýstur þá finnst mér stjórnmálamenn ekki hafa umboð til þess að taka ákvörðun eða undirrita svona samninga.