141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Það er mér á ákveðinn hátt áhyggjuefni að það skuli vera hv. málshefjanda — en ég fagna umræðunni — undrunarefni að hugmyndir um olíuleit á Drekasvæðinu hafi vakið blendin viðbrögð. Mér finnst mikilvægt að við blásum ekki til of mikils húllumhæs akkúrat núna þó að við séum skiljanlega að fara að rannsaka þennan kost. Mér finnst mikilvægt að við séum með báða fætur á jörðinni og ákveðin efahyggja, efasemdir, eiga mjög ríkulegt erindi inn í þessa umræðu.

Það er margt sem við þurfum að spyrja okkur að. Í fyrsta lagi þurfum við að minna okkur á að ekki er búið að finna neina olíu þarna, við vitum ekki hvort hún er vinnanleg. Ég hvet því til þess að við nálgumst þetta af mikilli yfirvegun. Olía hefur fundist annars staðar en ekki er hægt að vinna dropa af henni.

Við verðum að læra af reynslunni. Við höfum oft farið ansi illa út úr ákveðnu gullgrafarahugarfari og við ættum að hafa kynnst ruðningsáhrifum gullgrafaraviðhorfs á Íslandi. Okkur hættir til að takast ekki á við grundvallaratriðin í íslensku samfélagi, eins og skakkan efnahagsgrundvöll og skort á fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi og þar fram eftir götunum, en við rjúkum í næsta stórverkefni sem á að redda málunum. Mikilvægt er að við nálgumst þetta ekki þannig.

Svo eru það umhverfismálin. Mér finnst stórar spurningar vakna. Það er stutt mjög yfirgripsmiklum rannsóknum og gögnum að notkun á jarðefnaeldsneyti stuðlar að mengun og mikilli umhverfisvá. Metnaðarfyllstu markmiðin hvað varðar jarðefnaeldsneyti lúta að því að útrýma algerlega notkun jarðefnaeldsneytis á 21. öldinni. Við þurfum að spyrja okkur: (Forseti hringir.) Ætlum við að styðja þau markmið? Hvernig samrýmist það vinnslu á jarðefnaeldsneyti?