141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli og tek undir að umræðan er þörf. Hún hefur til að mynda sýnt fram á það að þau öfl sem stjórna landinu og þau öfl sem hafa stutt núverandi ríkisstjórnarflokka virðast vera á móti allri atvinnuuppbyggingu sem snertir olíuvinnslu Íslendinga. Ef þau væru sjálfum sér samkvæm um að við ættum ekki að nýta þessa olíu hljóta þau að leggjast gegn innflutningi á olíu og gasi. (Gripið fram í.) Þá hefðu þau kannski líka átt að taka undir það að nær væri að byggja upp endurnýjanlega orkugjafa með því að taka jákvæðar á rammaáætluninni hér fyrir nokkru. Það er ekki heil brú í þessum málflutningi, frú forseti.

Ákvörðunin er tekin um leit og vinnslu. Miklar líkur eru á að olía finnist, olía og gas er fyrir hendi. Allt í kringum okkar, í Grænlandi og Færeyjum og hér á landgrunninu og í Noregshafi, hefur þetta gengið ágætlega. Er ekki núverandi ríkisstjórn alltaf að horfa til Norðurlandanna? Sjávarútvegsráðherra Noregs segir að sambúð fiskveiða og olíuvinnslu hafi gengið með afbrigðum vel í Noregi. Á þá að fara að vekja upp einhverja drauga um að það sé eitthvað öðruvísi hér á landi? Ætlum við ekki að horfa til þeirra sem hefur hvað best gengið í heiminum í náttúruvernd? Eða ætla þeir sem hafa komið hér upp að halda því fram að Norðmenn séu umhverfissóðar?

Ég varð líka svolítið undrandi að heyra orð hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að ávinningurinn af þessu væri takmarkaður og yrði takmarkaður næstu fjögur, fimm árin. Þýðir það að ríkisstjórnin hafi ekkert lagt í það að byggja upp þá atvinnu sem tengist olíuleit og þjónustu við olíuleitarfyrirtæki? Ætla menn að henda því gríðarlega tækifæri frá sér sem það býður upp á? Í Færeyjum er olíuleit þrátt fyrir átta neikvæðar borholur orðin næststærsti atvinnuvegur landsins. Ætlum við, (Forseti hringir.) eins landfræðilega mikilvæg og við liggjum, að henda því tækifæri frá okkur að byggja hér upp þjónustu og þekkingu (Forseti hringir.) skapandi greina, mannauðsins, að byggja upp þennan iðnað innan lands? (Forseti hringir.) Ég trúi því vart.