141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna því að einhver umræða sé um málið. Ég hef gagnrýnt það að mér finnst skorta umræðu um bæði kosti og galla þessa ævintýris. Ég hef aðeins verið í samskiptum við aðila í Noregi sem teljast til umhverfisverndarsinna og ég hef jafnframt rætt við blaðamenn. Ég hef heyrt að það er pínulítið verið að nota okkur í leik gegn umhverfissinnum í Noregi. Noregur er einmitt ekki fullkomna landið þar sem engin spyrnir við fótum að fara inn á þessi gríðarlega viðkvæmu svæði. Ég er ekki að segja að ég sé á móti því en við verðum að vera betur upplýst um afleiðingar þess að fara í þessa vegferð.

Ég verð jafnframt að gagnrýna það að mér finnst ekki hafa verið nægilega miklar upplýsingar um þau leitar- og vinnsluréttindi sem undirrituð voru og í raun og veru alveg furðulegt að við höfum ákveðið að undirrita samninga áður en rætt er um þessi mál í samfélaginu og áður en farið er nákvæmlega yfir það hvað það þýðir að leita að olíu á svona viðkvæmu svæði þar sem niðurbrot á olíu, ef það verður slys, tekur margfalt lengri tíma en til dæmis í Mexíkóflóa.

Ég fagna því að við erum byrjuð að tala um þetta. Við hefðum átt að fara hina leiðina, tala fyrst, framkvæma svo. Vera upplýst fyrst, búa til svipaðan sjóð og svipað fyrirkomulag og er í Noregi á undan, því að við vitum alltaf hvað gerist þegar farið er að gera tilraunaborholur, við endum með því að bora. Þá er orðið of seint að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég vona að við gerum það ekki líka með þetta mál því að afleiðingarnar eru sýnu verri ef við gerum þetta ekki á upplýstan máta.