141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætissvör. Það er misskilningur að engin umræða hafi farið fram um þessi mál. Í umræðunni var einmitt vakin athygli á því að það sem við værum að gera byggðist á lögum frá árinu 2001. Ætli einhver umræða hafi ekki farið fram á grundvelli þeirrar lagasetningar? (Gripið fram í.) Ég vil líka vekja athygli á því að þingmenn Norðausturkjördæmis fluttu þingsályktunartillögu árið 2007, fyrir sex árum síðan, um það að undirbúa norðausturhornið fyrir þjónustumiðstöð sem gæti annast helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita olíu á Drekasvæðinu. Það er ekki þannig að menn hafi ekki viljað ganga undirbúnir til þessa leiks eða taka þátt í umræðunni. Sú umræða hefur farið fram.

Við þekkjum öll þau sjónarmið sem hafa komið fram og allt í lagi að þau séu ítrekuð, en það kom mér hins vegar mjög á óvart að hlusta á hæstv. umhverfisráðherra tala hérna áðan eins og hæstv. umhverfisráðherra hefði ekki verið þátttakandi í ákvörðuninni sem tekin var um að hefja leit og vinnslu á olíu á Drekasvæði.

Hæstv. umhverfisráðherra sló mikinn varnagla við þessu máli öllu saman og dró fram allt það neikvæðasta sem hæstv. ráðherra taldi sig geta fundið gagnvart málinu. Nú er það þannig að þessi ákvörðun hefur verið tekin. Hér er ríkisstjórnarákvörðun um það að hefja leitina og óaðskiljanlegur hluti þess er sá að handhafar sérleyfanna, eins og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra vakti athygli á, hafa forgangsrétt til vinnslunnar ef olía finnst í vinnanlegu magni og hægt er að gera það með arðbærum hætti. Þannig er þetta. Ég er þess vegna dálítið undrandi yfir þessari umræðu hjá hæstv. umhverfisráðherra.

Að öðru leyti vil ég segja að auðvitað erum við að fara út í þessa leit. Hún er gerð með fjárhagslegri áhættu þeirra sem standa að henni. Þeir verða að hafa eðlilegar og réttmætar væntingar til þess að geta hafið vinnslu ef vinnanlegt magn finnst og hægt er að gera það með fjárhagslegum ábata. Þess vegna er grundvallaratriði, eins og ég áréttaði áðan, að ekki er (Forseti hringir.) hægt að bregða fæti fyrir þá með stjórnvaldsákvörðunum. Stjórnvöld verða að hafa málefnalegar ástæður fyrir því að hefja ekki vinnslu á olíunni ef hún finnst í vinnanlegu magni.