141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samkeppni á bankamarkaði.

540. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að á þingi hafi almennt ríkt mikil sátt og velvilji í garð sparisjóðanna og að menn hafi talið þá mjög mikilvæga í íslensku samfélagi í gegnum tíðina. Gjarnan var talað um að sparisjóðirnir væru fjórða aflið á fjármálamarkaðnum. Þar af leiðandi höfum við, þ.e. margir þingmenn og margir úti í samfélaginu, haft áhyggjur af því hvernig sparisjóðakerfið muni þróast í framtíðinni eftir áfallið í fjármálakerfinu og allt sem því fylgdi.

Í september 2012 tók Samkeppniseftirlitið slíkar ákvarðanir að ekkert varð af samruna Sparisjóðs Svarfdæla við Landsbankann. Samkeppniseftirlitið hefur líka lýst ákveðnum áhyggjum af þróun í samkeppni á fjármálamarkaði. Nýlega birti Samkeppniseftirlitið skýrslu sem ber heitið Fjármálaþjónusta á krossgötum. Kennir þar margra grasa og margt forvitnilegt kemur í ljósi í þeirri skýrslu. Þar er meðal annars fjallað nokkuð ítarlega um sparisjóðina, um þau tækifæri sem þar felast og hvernig þeir geta mögulega eflst eða verið endurreistir. Þar af leiðandi vakna nokkrar spurningar sem hægt væri að spyrja og mikilvægt er kannski að fá svör við síðar.

Að þessu sinni langar mig aðallega að spyrja hvernig við getum séð þetta þróast vegna þess að yfir vofir eða fyrir liggur áhugi á að leysa til sín einn af stærri sparisjóðunum sem þó eru eftir. Samkeppniseftirlitið kemst í rauninni að því að ákveðin tækifæri felist í þeim sparisjóðum sem eftir eru til að búa til og auka samkeppni á fjármálamarkaði, hvort sem það verður með því að skjóta styrkari stoðum undir núverandi sparisjóðakerfi eða með því að breyta kerfinu einhvern veginn þannig að það verði sterkara til framtíðar.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji í ljósi umsagnar Samkeppniseftirlitsins um samruna Sparisjóðs Svarfdæla við Landsbankann að það sé í fyrsta lagi í þágu samkeppni á bankamarkaði að Arion banki taki yfir Afl sparisjóð á Siglufirði, eins og hefur verið í undirbúningi, og í öðru lagi hvort slík yfirtaka sé í anda samkeppnislaga?

Þessar spurningar held ég að séu eðlilegar í ljósi álits Samkeppniseftirlitsins. Því óska ég eftir að hæstv. ráðherra svari þeim svo að við getum verið betur upplýst um vilja og skoðanir ríkisstjórnarinnar eða ráðherrans í það minnsta í þessu máli.