141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samkeppni á bankamarkaði.

540. mál
[16:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það væri atlaga að hagsmunum neytenda á Íslandi ef Arion banki tæki yfir Afl sparisjóð á Siglufirði. Ástæðan er sú að hann er stærsti og burðarmesti sparisjóðurinn af þeim sem eftir eru. Ef hann hyrfi úr flóru þeirra sparisjóða sem enn eru til og flestir í eigu ríkisins, því miður ekki Afl, tel ég að mjög erfitt yrði að endurskipuleggja sparisjóðakerfið.

Ég tel að það sé partur af fjárhagslegri endurskipulagningu fjármálakerfisins að byggja upp sparisjóðakerfið og tryggja að það verði vörn okkar neytenda gegn þeirri fákeppni sem ríkir á bankamarkaði og mun án efa á næstu tveimur, þremur, fjórum árum verða enn ríkari en í dag.

Sömuleiðis bý ég ekki við þær skorður að vera bankamálaráðherra og get þess vegna sagt hug minn. Ég tel alveg ótvírætt að útskurðurinn frá Samkeppniseftirlitinu varðandi sameiningu Sparisjóðs Svarfdæla og Landsbankans leiði fram að það mundi algjörlega stríða gegn anda samkeppnislaga ef Arion banki tæki yfir Afl sparisjóð. (Forseti hringir.)