141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samkeppni á bankamarkaði.

540. mál
[16:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fyrir svörin og einnig utanríkisráðherra og öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni því að við erum að ræða mjög mikilvægt mál sé horft til framtíðar.

Ég held að öllum sé ljóst að miðað við ályktanir Samkeppniseftirlitsins sé það ekki í þágu ríkisins, í þágu samkeppni á fjármálamarkaði, að sá samruni sem þarna er um að ræða, þ.e. sem kemur fram í fyrirspurninni, að Arion banki taki yfir Afl sparisjóð, sé sparisjóðakerfinu, ríkissjóði og samkeppninni til hagsbóta, þvert á móti. Við verðum að átta okkur á því að sá sjóður sem um ræðir er líklega 20–30% af heildinni þegar horft er á sparisjóðakerfið og þar af leiðandi mundi það væntanlega veikja stöðu ríkissjóðs eða þeirra eigna sem ríkissjóður á þegar í dag, eða heldur á, í öðrum sparisjóðum.

Ég skil ágætlega að hæstv. ráðherra bankamála geti illa farið nákvæmar í hlutina en hér hefur verið gert. Ég kýs þó að túlka orð hæstv. ráðherrans þannig að hann sé sammála því að það sé ekki í anda samkeppni eða til þess fallið að efla sparisjóðakerfið gangi sú yfirtaka eða samruni eftir sem um er að ræða.

Ég held því að við hljótum að geta fullyrt að það sé okkar hlutverk núna að reyna að hraða því að sparisjóðakerfið verði endurskipulagt, hraða því að menn geti horft til framtíðar, gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að frekari yfirtökur eða samruni eigi sér stað og að það sé verkefni ríkisvaldsins á næstunni og okkar þingmanna að aðstoða við það verkefni því að það eru okkar sameiginlegu hagsmunir, ef ég leyfi mér að fullyrða, að sparisjóðakerfið verði rekið áfram. Þar erum við að gæta hagsmuna ríkissjóðs, þar erum við að gæta samkeppnishagsmuna og um leið að styðja mjög við landsbyggðina og alla þá þætti sem sparisjóðirnir hafa verið svo ötulir við að styðja úti á landi og annars staðar.