141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

Húsavíkurflugvöllur.

313. mál
[16:51]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra varðandi málefni Húsavíkurflugvallar sem, eins og forseti gat um, hv. þm. Kristján L. Möller bar fram fyrir nokkru og er sjálfsagt mál að halda þeirri fyrirspurn á lofti í veikindaleyfi hans.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að flugvellir gegna lykilhlutverki í samgöngumálum á Íslandi. Þeir eru fjöldamargir hringinn í kringum landið og sú var tíðin fyrir fáum áratugum að áætlunarflug var til 40 staða á Íslandi en nú mun það einungis vera til 12 staða þannig að sú Snorrabúð er stekkur í þeim samanburði. Engu að síður geta aðstæður breyst á tiltölulega skömmum tíma og það á við um flugvöllinn í Aðaldal sem hefur sinnt Húsvíkingum, Suður-Þingeyingum og eftir atvikum Norður-Þingeyingum ágætlega um langt skeið, en hefur legið í láginni undanfarin ár eftir því sem breytingar hafa orðið á innanlandsflugi víða um land. Sökum fyrirsjáanlegrar uppbyggingar á Húsavíkursvæðinu vegna virkjana á Þeistareykjum, í Bjarnarflagi og eftir atvikum á fleiri stöðum í Suður-Þingeyjarsýslu horfa menn mjög til aukinnar umferðar um Aðaldalsflugvöll, enda mun eftir því sem margir segja langt hagvaxtarskeið vera í uppsiglingu á því svæði með tilheyrandi iðnaðarkostum á Bakka og enn frekari virkjunum jarðvarmans á svæðinu.

Ég ber upp þá spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort fjármunum muni í einhverjum mæli og auknum mæli verða varið til að byggja upp Húsavíkurflugvöll til að geta tekið á móti þeirri auknu hagsæld sem er fyrirsjáanleg á svæðinu og þar með aukinni umferð. Ég vil nefna það sérstaklega í því ljósi að á undanliðnum vikum hafa að mér skilst einar tíu flugvélar þurft að snúa við frá Aðaldalsflugvelli vegna þess að aðflugssendir er bilaður þar. Það þarf að stilla hann og tengja til að flugvöllurinn geti sinnt því aukna flugi sem nú þegar er hafið til Aðaldalsflugvallar og á, eftir því sem menn spá, eftir að aukast enn frekar.