141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

Húsavíkurflugvöllur.

313. mál
[16:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hefur markmið Alþingis verið að draga úr ríkisútgjöldum og þar hafa framlög til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu ekki verið nein undantekning. Framlögin hafa dregist saman að krónutölu undanfarin ár á meðan allar vísitölur hækka. Ég ætla ekki að fara yfir talnaflóðið þar en vil láta þess getið að við gerð fjárlagafrumvarpsins óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að framlög 2013 yrðu 115 millj. kr. hærri en raunin varð í frumvarpinu. Niðurstaðan varð með öðrum orðum önnur og þá niðurstöðu studdi ég og væntanlega einnig hv. fyrirspyrjandi.

Vegna samdráttar undanfarinna ára hefur allt aðhald stóraukist og dregið úr framkvæmdum svo að viðhaldi kerfisins er víða stefnt í vandræði. Þá hefur verið brugðið á það ráð að hækka þjónustugjöld á notendur við lítinn fögnuð flugrekenda og að þeirra sögn yfir þolmörk flugfarþega. Þrátt fyrir það er innanlandskerfi Isavia rekið með tapi sem nemur um 260 millj. kr. frá árinu 2010. Eins og kunnugt er hefur dregið verulega úr viðhaldi á flugvöllum þrátt fyrir að álögur á flugið hafi verið auknar gagngert til þess að halda því uppi. Ljóst er að ekki gengur til lengdar að draga þetta mikið úr viðhaldi án þess að það endi með að skerða verður þjónustuna af öryggisástæðum, þ.e. ef kerfin fara að gefa sig. Þetta var þó gert til þess að verja þjónustuna á meðan við kæmumst í gegnum tímabundnar efnahagsþrengingar.

Þetta er nauðsynlegur formáli að mínu svari sem er heldur gleðilegri upplesning en sú sem hér var höfð frammi. Nú stöndum við frammi fyrir því að hafið er áætlunarflug til Húsavíkurflugvallar með þeim miklu samgöngubótum sem það er fyrir svæðið en auknum rekstrarkostnaði. Tryggi ríkið ekki rekstur flugvallarins má telja nokkuð öruggt að flugið leggist af og annað jafngott tækifæri gefist ekki í bráð til að koma á eða viðhalda áætlunarflugi til Húsavíkurflugvallar. Þess vegna hefur verið ákveðið að tryggja rekstur flugvallarins út þetta ár þrátt fyrir ofangreint. Í þeirri ákvörðun felst að enn er rekstur kerfisins látinn ganga fyrir á kostnað viðhalds. Eins og fyrr segir gengur það ekki til lengdar og því nauðsynlegt fyrir Alþingi að taka ákvörðun um hvert skuli stefna í umfjöllun sinni um samgönguáætlun og síðan fjárlög næsta árs og næstu ára.