141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu leyti mjög sérstakt að hér skuli koma fram dagskrárbreyting frá þingmanni Hreyfingarinnar varðandi dagskrána í kvöld þar sem hv. þingmaður vill að stjórnarskráin sé rædd frekar en frumvarp atvinnuvegaráðherra.

Við hljótum því að spyrja okkur hvort þetta séu þá þau forgangsatriði sem við sjáum frá þessum tveimur aðilum, þ.e. frá ríkisstjórninni og Hreyfingunni, að ræða skuli stjórnarskrána það sem eftir lifir þings eða þá kvótafrumvarpið.

Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum berjast menn ekki fyrir því að mál varðandi heimilin séu kláruð? Hvers vegna berjast þessir aðilar ekki fyrir því? Nú liggur fyrir fjöldinn allur af tillögum (Gripið fram í.) varðandi heimilin, varðandi það hvað gera skuli til að bæta stöðu þeirra, en ekki er lögð áhersla á það. (Gripið fram í.) Hvers vegna er það ekki gert?

Við hljótum því að spyrja hv. þingmenn um hvort þetta sé sú forgangsröðun sem virðist eiga að vera hér. Þetta er staðfesting á forgangsröðuninni. En þingmenn Framsóknarflokksins ætla að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna því að við teljum að hvorugt þessara mála sé það mikilvægasta sem klára þarf núna.