141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það kom mér og hinum þingmönnum Hreyfingarinnar og fleirum í samfélaginu í opna skjöldu að stjórnarskráin skuli ekki hafa verið sett á dagskrá í dag. Ef maður horfir á dagskrána lítur út fyrir að ekki verði fjallað um það mál þessa vikuna. Það veldur mér áhyggjum. Þess vegna fór ég fram á það á þingflokksformannafundi ásamt tveimur öðrum þingflokksformönnum að við mundum funda á föstudaginn til þess að tryggja að við fengjum þá umræðu sem stjórnarandstaðan kallar eftir, vandaða og langa umræðu um stjórnarskrána. Ég skil ekki af hverju stjórnarandstaðan vill ekki ræða málið til dæmis á föstudag og laugardag. Við skulum funda ekki bara núna á föstudag og laugardag heldur alla föstudaga og laugardaga (Gripið fram í.) og vinna þannig að við séum ekki á síðustu stundu með öll mál.