141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:13]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er athyglisverð umræða og hún leiðir því miður í ljós ákveðna forgangsröðun á þingmálum sem mér finnst algjörlega óásættanleg. Hér á að taka fyrir kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar, eitthvert mesta skaðræðisfrumvarp og auðlindaránsfrumvarp sem nokkru sinni hefur litið dagsins ljós hér á landi. Verið er að festa í sessi með samningsbundnum nýtingarleyfum kvóta til 20 ára sem býr til skaðabótaskyldu á hendur ríkinu ef hreyft verður við kerfinu.

Það ætlar þingið, stjórnarmeirihlutinn, að taka á dagskrá í dag í staðinn fyrir stjórnarskrána, mál sem gengur þvert gegn auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þau vinnubrögð eru furðuleg og ég lýsi megnri vanþóknun á slíkum vinnubrögðum. Ég hvet þingið eindregið til að ýta kvótamálinu til hliðar og taka stjórnarskrána á dagskrá þannig að við getum rætt hana í þaula og klárað hana með sóma eins og afgerandi meiri hluti þjóðarinnar vildi gera í atkvæðagreiðslunni 20. október.