141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nefndi það hér í framsögu sinni að það þyrfti ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi málsins. Undir það get ég tekið með hæstv. ráðherra, málið er ákaflega mikilvægt. Þau atriði sem hann tilgreinir að hafi verið skoðuð og gerðar einhverjar breytingar á eru veigamikil atriði og ráða mjög miklu um það hverjar afleiðingar og áhrif þessa frumvarps verða, meðal annars á þá þætti sem ég fór yfir hér áðan. Í ljósi mikilvægi málsins og þess að ráðuneytið hefur ekki látið yfirfara það með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið að gera við þessar breytingar, með því að meta þessi áhrif upp á nýtt út frá nýjum forsendum í veigamiklum atriðum, er ráðherrann þá ekki sammála því að hv. atvinnuveganefnd hljóti að kalla til þá sérfræðinga sem hún fékk til að vinna álit á málinu síðast? Að þeir fari í vandaða vinnu við að leiða í ljós áhrifin af þessu frumvarpi, þessari útgáfu af málinu. (Forseti hringir.) Á nefndin ekki að fá til sín sérfræðingana og fara með þetta mál í eðlilegt og ítarlegt umsagnarferli?