141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig ég kann að hafa orðað þetta á haustdögum, en ég kannast ekki við að ég hafi sagt að það ætti ekkert að gera með þá vinnu sem var unnin af hinum svonefndu trúnaðarmönnum. Vandinn er hins vegar sá að þegar niðurstaðan þar er skoðuð, og þess vegna er hún birt hér sem fylgiskjal, þá er hún háð miklum fyrirvörum um heildarsamkomulag. Farið er að sumum þeirra ábendinga sem þar eru, en öðrum ekki eins og gengur, meðal annars vegna þess að þær voru nátengdar því að grundvallarósamkomulag var um tiltekna þætti sem ekki er pólitískur stuðningur við af hálfu stjórnarflokkanna að falla frá, eins og því að hafa kvótaþing og byggja þar upp virkan leigumarkað með veiðiheimildir. Ágreiningur um slíkt er einfaldlega of mikill til að hægt sé að brúa hann þrátt fyrir vinnu fjórmenninganna.

Ég hefði gjarnan viljað að málið hefði komist fyrr inn, því er ekki að leyna, en á móti kemur að þingmönnum er það mjög vel kunnugt. Ekki eru það miklar breytingar á því frá því sem menn hafa rætt hér, alla vega á síðasta þingi og jafnvel áður, að mönnum ætti ekkert að vera að vanbúnaði að skoða þessar tilteknu afmörkuðu breytingar og eftir atvikum takast á við málið í heild.

Eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Pétur Blöndal er ég bjartsýnismaður. Ég treysti þinginu og hv. atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) til að gera sitt besta.