141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:10]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri þáttinn að kvótaþingið bjóði ekki upp á nægjanleg tæki eða sé ekki í þágu þess að styrkja stöðu byggðanna þá hefur þeirri gagnrýni einmitt verið mætt að hluta til. Í þessu frumvarpi er búið að auka svigrúmið til þess að geta leigt út svæðisbundið, og það er sérstaklega tekið fram að það geti verið til byggðarlaga sem hallað hefur á í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Sama orðalag og notað er á öðrum stað í lögum til dæmis um byggðakvóta. Til viðbótar er kominn inn, að ábendingu sérfræðinga, möguleikinn á að hluti þeirrar útleigu yrði til meira en eins árs í senn. Það mætti því hugsa sér að búa til aðeins meiri stöðugleika fyrir þá sem væru að sækja sér veiðiheimildir svæðisbundið í gegnum slíkt.

Varðandi hagkvæmni, að kvótaþing og virkur leigumarkaður eða uppboðsmarkaður með aflamark sé andstæður arðsemi í greininni þá er ég ósammála því. Ég tel að færa megi fram sterk rök fyrir því að (Forseti hringir.) það geti verið mjög hagkvæmt að hreyfanleiki sé á aflamarki af því tagi sem nýti betur vannýtt tæki og tól og getu manna innan fiskveiðiársins með því að sækja sér viðbótarheimildir á kvótaþingi þar sem viðbótarjaðarkostnaður (Forseti hringir.) væri lítill. Menn geta fengið mjög mikla hagkvæmni út úr því að bæta nýtingu tækja sinna með því að sækja sér auknar veiðiheimildir á kvótaþingi.