141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina spurningum til hv. þingmanns. Þar sem við erum nú bæði fædd og uppalin á Vestfjörðum, þekkjum vel til á því svæði og höfum horft upp á mikla fækkun íbúa síðastliðin 20 ár og því hefur verið haldið á lofti, og ég hef þá trú, að núverandi kvótakerfi hafi átt mikinn þátt í því — telur hv. þingmaður að það kerfi sem við búum við núna hafi engin áhrif haft á byggðaþróun á Vestfjörðum og hvaða möguleika sér hann til þess að snúa þeirri byggðaþróun við? Sér hann eitthvað jákvætt í þessu frumvarpi sem gæti orðið til að styrkja byggð á Vestfjörðum?

Hv. þingmaður kom inn á mikla óvissu sem frumvarpið fæli í sér. Búa menn við enga óvissu í núverandi kerfi? Ríkir engin óvissa í þessum byggðum, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík, ef viðkomandi útgerðaraðilar mundu ákveða á morgun að flytja af svæðinu með sínar aflaheimildir og fara að gera út annars staðar en þar?

Ég vil heyra hvað hv. þingmaður segir um þetta og mun koma fleiri spurningum að á eftir.