141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefur núverandi fiskveiðistjórnarkerfi haft áhrif á byggðirnar á Vestfjörðum og í ýmsum tilvikum neikvæð áhrif. Ég er fyrstur manna til að viðurkenna það og ég hef meðal annars helgað hluta af mínu pólitíska starfi því að reyna að bregðast við með ýmsum hætti. Við sjáum þetta til dæmis á því að tilfærslur á fiskveiðirétti urðu fyrst og fremst, ekki algjörlega en fyrst og fremst, eftir að framsalskerfið var sett á 1991 og fyrsta áratuginn þar á eftir. Segja má að ekki hafi orðið mjög miklar breytingar síðan þó að við þekkjum engu að síður sár dæmi um það.

Þannig að ég vil fullyrða það, það er alveg rétt, að núverandi kerfi hefur líka haft neikvæðar afleiðingar fyrir byggðirnar á Vestfjörðum. Við reyndum að bregðast við með ýmsum hætti og það sem ég tel að hafi skipt þar langmestu máli var það þegar við settum á laggirnar sérstakt fiskveiðikerfi smábáta, þar sem við með pólitísku handafli, eins og ég hef stundum orðað það, færðum til fiskveiðirétt úr aflamarkskerfinu inn í það sem við höfum núna kallað krókaaflamarkskerfi og ég er ekki í nokkrum vafa um að hefur breytt miklu og búið til nýja viðspyrnu fyrir minni byggðirnar í landinu. Það sjáum við einfaldlega á dreifingu krókaaflamarksins.

Það sem síðar varð til að styrkja það kerfi sérstaklega var tilkoma línuívilnunar og það er alveg ljóst mál líka, af tölum sem við sjáum, að það hefur skipt miklu máli. Það bjó til forskot fyrir þessar útgerðir þó að þessum útgerðum sé meinað að stunda aðrar veiðar en á króka. Engu að síður bjó það þarna til forskot og þess vegna er ég mjög undrandi á því að sjá að í þessu frumvarpi skuli vera lögð svona mikil áhersla á að veikja þennan hlut málsins sem sannarlega hefur komið að gagni fyrir ýmsar veikari byggðirnar hringinn í kringum landið.