141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:39]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög athyglisvert að þingmaður í flokki sem kennir sig við einkaframtak og frelsi og markaðssjónarmið skuli finna alla annmarka á þeirri hugmynd að koma upp opnum leigumarkaði með aflaheimildir en bítur sig þess í stað þeim mun fastar í ráðherraúthlutaða potta og ívilnanir eins og línuívilnun og rækju- og skelbætur, molana sem voru skildir eftir þegar kakan var tekin fyrir tilstilli þess stjórnmálaflokks sem hann er fulltrúi fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins áfram. Ég hef nefnilega séð mikla breytingu á Bolungarvík síðustu þrjú ár, eftir að strandveiðarnar komu til. Ég hef orðið þess vör, eins og reyndar á fleiri stöðum í okkar kjördæmi, að strandveiðarnar hleyptu miklu lífi í hafnirnar í þeim bæjum. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig metur hann áhrif strandveiðanna á sitt byggðarlag og ekki síst þá sinn bernskubæ, Bolungarvík? Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Sjái hann yfirleitt ástæðu til að breyta einhverju í þessu kvótakerfi, sér hann ástæðu til þess og ef svo er, hvaða breytingar mundi hann þá vilja sjá?