141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð nú að byrja á því að segja að ég fagna sinnaskiptum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar gagnvart strandveiðunum sem hann hefur reyndar barist gegn öll þau ár sem við höfum setið saman á þingi. Nú nálgast kosningar svo það er ágætt að hann sjái að sér varðandi það. Ég vil í tilefni af því líka minna hv. þingmann á ágætt frumvarp sem ég hef flutt í þinginu um breytingar á fyrirkomulagi strandveiðanna sem hrekur auðvitað algjörlega gífuryrði hans rétt áðan um aðkomu mína og afstöðu til þeirra mála. Ég mun koma nánar að því í ræðu minni.

Við erum að ræða frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra mælti fyrir fyrr í dag. Málið hefur verið okkur þungt í skauti í þinginu og um það hafa staðið miklar deilur öll þau fjögur ár sem þetta kjörtímabil spannar. Kjarni þeirra deilna sem hér hafa verið uppi má segja að séu átökin milli sérhagsmunanna og hinnar samfélagslegu kröfu um heilbrigðar og eðlilegar leikreglur í þeirri undirstöðuatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er, þ.e. krafa og vilji núverandi stjórnarflokka til þess að taka upp eðlilegt samkeppnisumhverfi og rekstrarumhverfi í sjávarútveginum, opna kerfið og líta þar með til atvinnufrelsis- og jafnræðissjónarmiða sem skipta auðvitað miklu máli. Ekki síður það sjónarmið sem lítur til þess réttar sem byggðirnar ættu að hafa til að bjarga sér sjálfar og njóta síns frumbyggjaréttar til að nýta aðliggjandi auðlindir og náttúrugæði.

Byggðirnar í landinu greiddu fyrir hagræðinguna í sjávarútveginum. Þær guldu með lífsbjörg sinni fyrir samlegðaráhrifin í sjávarútveginum eftir að kvótakerfinu var komið á, aflaheimildirnar tóku að safnast á færri hendur og kvótinn fór að hverfa úr byggðarlögum. Kerfinu var lokað og það bundið við forréttindaúthlutun örfárra á grundvelli þriggja ára veiðireynslu eins og við þekkjum.

Ég skal fúslega viðurkenna að frumvarpið leysir ekki allan vanda en það er skref í rétta átt eins og ég vona að mér takist að rökstyðja á eftir. Það hefur tekið breytingum frá þeim frumvörpum sem hafa verið kynnt fyrr á kjörtímabilinu og þar er hnykkt á grundvallaratriðum sem varða aukið atvinnufrelsi, jafnræði og eignarhald á auðlindinni, þ.e. kröfunni um þjóðareign á auðlindinni, hverjum hún skuli nýtast, hverjir hafi aðgang að henni og hverjir fái að njóta arðsins af nýtingu þessarar þjóðarauðlindar. Áherslan er á hina samfélagslegu hagsmuni og þjóðhagslegan ávinning eins og kemur glöggt fram í markmiðsgrein 1. gr. frumvarpsins.

Verði þetta frumvarp að lögum mun eftirfarandi gerast. Ég lít svo á að með gildistöku frumvarpsins séu allar aflaheimildir innkallaðar á einu bretti og þeim úthlutað að nýju til afmarkaðs tíma gegn gjaldi. Hinn ótímabundni nýtingarréttur sem útgerðin hefur viljað slá eignarhaldi á er gerður tímabundinn og einskorðaður við að vera nýtingarréttur. Það er hluti 1, nýtingarleyfin. Með hinum tímabundnu nýtingarleyfum er sú ótímabundna eignarmyndun sem útgerðin hefur slegið á aflaheimildirnar rofin og nýtingin einskorðuð við 15–20 ár. Nái það fram að ganga má segja að hraðar sé farið í þá grundvallarbreytingu sem boðuð var fyrir síðustu kosningar, að fyrna aflaheimildir um 5% á ári og koma auðlindinni þannig í hendur þjóðarinnar á 20 árum.

Til hliðar við nýtingarhlutann verður hluti 2 sem samanstendur af nokkrum pottum; byggðakvóta, línuívilnun, strandveiðum, rækju- og skelbótum, en ekki síst leigupottinum sem mér er annast um í því samhengi vegna þess að sá pottur er ekki til ráðherraúthlutunar. Hann er ekki handstýrður heldur er hann opinn leigumarkaður með aflaheimildir og með honum opnast þar með markaður sem samkvæmt frumvarpinu ætti að geta orðið virkur og verðmyndandi gangi það eftir sem er stefnt að með frumvarpinu, að upphafsstaðan í þeim potti liggi nálægt 20 þúsund tonnum.

Úr pottinum verður hægt að leigja aflaheimildir frá ári til árs á grundvelli tilboða á kvótaþingi og til viðbótar við hann hefur útgerðin heimild til að leigja frá sér 25% sinna aflaheimilda. Sá réttur er vissulega áunninn með veiðum en þarna er um að ræða 25% af þeim aflaheimildum sem eru í stóra kerfinu nú þegar og skylda að láta þau leiguviðskipti fara fram um kvótaþing. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að gangi það eftir má segja að um þriðjungur allra aflaheimilda sé kominn á kvótaþing, á opinn markað þar sem útgerðin hefur ekki tök á að stýra verði eða stjórna framboði. Þetta er grundvallaratriði og auðvitað grundvallarbreyting fyrir þá sem eiga núna svo mjög undir því að hafa aðgang að leiguheimildum. Það atriði finnst mér koma til móts við kröfuna um að aflaheimildir séu í reynd eign þjóðarinnar og að nýting auðlindarinnar byggist ekki á eignarhaldi einstaklinga heldur sé þar um að ræða tímabundinn rétt gegn gjaldi í þjóðarbúið. Það er náttúrlega mjög mikilvægt að sem flestir eigi möguleika á að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli jafnræðis- og atvinnufrelsissjónarmiða á opnum leigumarkaði. Sá markaður hefði vissulega mátt vera stærri. Ég hefði gjarnan viljað sjá það því að auðvitað er það grundvallaratriði að leigumarkaðurinn sé það stór að hann beri uppi eðlilega verðmyndun og tryggi aðgengi með nægu framboði aflaheimilda. Það er mjög mikilvægt að rjúfa það leiguliðakerfi sem er við lýði í kerfinu nú þegar þar sem menn eiga þess ekki kost að leigja aflaheimildir nema af núverandi kvótahöfum.

Vissulega mætti margt betur fara í frumvarpinu og ýmislegt sem hefur ekki náðst þar fram. Sjálf hefði ég viljað sjá aðskilnað veiða og vinnslu sem og tryggingu þess að óunninn afli færi á innlendan markað fyrir fiskvinnsluna. Ég hefði líka viljað sjá að inntak nýtingarleyfanna yrði skilgreint betur í sjálfum lagatextanum, t.d. með áskilnaði um löglega kjarasamninga þar sem við á, skattskil, umgengni við auðlindina og aðra löghlýðni. Ég hef beitt mér fyrir þeim breytingum en ekki haft erindi sem erfiði en ég er ekki alveg vonlaus um að þær nái kannski fram að ganga í formi reglugerðar sem ráðherra mundi setja um úthlutun nýtingarleyfanna. Eins og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kom inn á áðan er frumvarpið málamiðlun í þeirri mynd sem það er núna. Hér hafa ekki allir fengið það sem þeir vildu og líkt og í sambandi við rammaáætlun og fleiri mál þurfa ýmsir að slá af sínum ýtrustu kröfum. Sú samviskuspurning sem ég stend frammi fyrir í þessu máli er hvort ég vilji frekar óbreytt ástand en að stíga skref fram á veg.

Óbreytt ástand er versti kosturinn sem ég get hugsað mér í þessari stöðu. Hér er að mínu viti stigið skref í rétta átt. Ásættanlegt skref með þeim opna leigumarkaði sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og þar af leiðandi styð ég málið í þessari mynd þótt ég viðurkenni fúslega að ég hefði viljað ganga lengra.

Síðastliðið vor afgreiddum við héðan veiðigjaldafrumvarpið sem tryggir það líka að samfélagið fær til sín arð af nýtingu auðlindarinnar. Það var mjög mikilvægt að það skyldi nást í gegn í samhengi við þetta frumvarp.

Önnur breyting sem ég vek athygli á að ég tel að þurfi að eiga sér stað er fyrirkomulag strandveiðanna. Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar flutti ég nýlega frumvarp í þinginu um breytt fyrirkomulag strandveiða sem ég vona heitt og innilega að þingið muni samþykkja þannig að hægt sé að fella það inn í þetta fiskveiðistjórnarmál. Þar er ekki verið að breyta grunnhugsuninni um strandveiðarnar, þ.e. hversu mikið skuli fara í strandveiðipottinn, heldur miklu frekar verið að hugsa um að vinna bug á þeirri mismunun sem er við núverandi ástand í strandveiðikerfinu.

Í strandveiðikerfinu eins og það er núna flykkjast bátarnir inn á bestu svæðin þar sem háð er mikið kapp um að komast á veiðarnar og ná sem mestu magni á sem skemmstum tíma. Þetta var gagnrýnt strax í upphafi og kallað ólympískar veiðar og talað um að öryggi sjómanna stafaði hætta af þessu fyrirkomulagi sem er rétt. Það er hægt að bæta það með því að opna glugga strax í apríl, gefa öllum kost á því sem uppfylla skilyrði að sækja um strandveiðileyfi, skipta því magni sem er til úthlutunar jafnt á milli þeirra báta sem uppfylla skilyrði um strandveiðileyfi og deila þeim síðan niður á landsvæðin eftir veiðiþoli. Það held ég að væri mjög skynsamleg breyting og þörf í því samhengi. Sömuleiðis að herða á kröfunni um eignarhald báta í strandveiðum, þ.e. að það séu raunverulegir eigendur sem eiga 50% eða meira í báti sem séu á þessum veiðum. Þar með gæti strandveiðibátum fækkað nokkuð sem mundi um leið þýða að meira væri til skiptanna fyrir þá sem stunda veiðarnar.

Ég vona vissulega að breytingarnar nái fram að ganga og ég held að þær yrðu mjög til góðs. Ég hef goldið jáyrði mitt við frumvarpi hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um stjórn fiskveiða og mun fylgja því eftir. Ég lít svo á að verið sé að opna kerfið og stíga skref í rétta átt, afnema það leiguliðakerfi sem er nú við lýði með opnu kvótaþingi og þar með verið að auka atvinnufrelsi sem okkur er svo umhugað um og skiptir svo miklu, ekki síst fyrir sjávarbyggðirnar. Eins og ég segi er þetta vissulega málamiðlun en það þarf líka þingmeirihluta á þessum vettvangi til að geta stigið eitthvert skref í rétta átt og þar af leiðandi ætla ég að fylgja því skrefi eftir.