141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði reyndar aldrei um málsmetandi aðila en þeir eru náttúrlega mjög málsmetandi menn sem bæði tjáðu sig um þjóðhagslegt gildi frumvarpsins, um byggðalegt gildi og umgengnisþátt málsins. Þeir komu úr fjölmörgum áttum. Það var málsmetandi fólk úr háskólasamfélaginu, starfandi sjómenn, starfandi útgerðarmenn, starfandi fiskverkendur o.s.frv. og einnig sveitarfélögin, eins og við munum eftir. Ég sakna hins vegar alvörudæma í svari hv. þingmanns um það með hvaða hætti brugðist hefði verið við fyrri gagnrýni. Það var mjög viðurhlutamikil gagnrýni og niðurstaðan t.d. úr sérfræðingahópnum sem mat frumvarpið fyrir atvinnuveganefnd, var sú að frumvarpið mundi hafa mjög alvarlegar og neikvæðar afleiðingar í för með sér, bæði í byggðalegu tilliti og í þjóðhagslegu tilliti.

Hópurinn benti meðal annars á að forsendan fyrir því að einhver möguleiki væri að ráða við þær hugmyndir sem uppi voru um veiðigjaldið og voru síðan lögleiddar væri t.d. að hverfa frá öllum hugmyndum um miklar skerðingar á aflahlutdeildunum. Skerðingarnar á aflahlutdeildunum mundu bitna harðast á skuldugustu útgerðunum sem ættu þá verr með að standa undir kröfu um veiðigjald sem hv. þingmaður er mikill talsmaður fyrir.

Ég sé t.d. ekki að brugðist sé við því í frumvarpinu. Það er dálítið sérkennilegt að enn á ný skuli ganga aftur í frumvarpinu sú óskaplega áhersla á að skerða sérstaklega aflahlutdeildirnar í þorski, bæði með því að hafa skerðingarprósentuna í þorskinum miklu hærri en í öðrum tegundum, til dæmis uppsjávartegundum, eða þá eins og þarna er gert ráð fyrir, að þegar þorskafli fer yfir 240 þús. tonn fari helmingurinn til þeirra sem haft hafa nýtingarleyfin eða fiskveiðiréttinn fram að þessu en hinn helmingurinn fari til annarrar ráðstöfunar.

Það er greinilegt að áhersla hæstv. ríkisstjórnar er fyrst og fremst (Forseti hringir.) að veikja starfandi þorskútgerðir. Ég hef heldur ekki alveg skilið röksemdafærsluna á bak við það að (Forseti hringir.) taka þorskveiðiútgerðirnar svona sérstökum tökum.