141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem starfsmenn í sjávarútvegi gera kröfu um er auðvitað að þeirra starf sé heilsársstarfsemi, alveg eins og við ætlumst til að sé í öðrum störfum. Það er kannski vandinn í þessu máli, við einbeitum okkur svo mikið að hugmyndinni um hver á að veiða og hvernig á að veiða að við gleymum þeirri grundvallarhugsun.

Út af fyrir sig geta menn bent á að skipum hafi fækkað og það hafi leitt til þess að störfum fækkaði en við erum um leið að skapa aðstæður fyrir fyrirtæki til að bjóða starfsemi allan ársins hring. Ég hef tekið dæmi um að í krókaaflamarkinu er það þannig að öflugustu bátarnir fiska 1.000–1.500 tonn á ári. Við gætum út af fyrir sig haft bátana tíu sinnum fleiri þar sem hver um sig fiskaði 100 tonn eða 150 tonn. Það yrði hins vegar ekki heilsársstarfsemi. Það er auðvitað ljóst mál að fjöldi fólks mundi þá einfaldlega kjósa að yfirgefa sjávarútveginn vegna þess að hann svaraði ekki þörfum um heilsársstarfsemi og góð laun.

Forsendan fyrir því öllu saman er sú að sjávarútvegurinn verði burðarásinn í einhvers konar nýsköpun og þá þurfa menn auðvitað að geta skipulagt sig lengra fram í tímann. Það eru sannarlega mjög spennandi tækifæri í þeim efnum. Mér finnst það mjög miður að öll okkar orka í sjávarútvegsumræðunni hér á hinum pólitíska vettvangi snúist um það, eða fer í það öllu heldur, að ræða þann afmarkaða þátt hver á að veiða, hvort það á að vera blár, hvítur eða rauður bátur, með hvaða veiðarfærum o.s.frv. Við hugsum miklu minna um það í því stóra samhengi sem við ættum að gera af því að við erum stjórnmálamenn og viljum móta reglurnar fyrir atvinnugreinina svo hún geti leitt til þeirrar nýsköpunar sem við erum að tala um. Hún skiptir svo miklu máli í samfélagi okkar núna og hún skiptir miklu máli fyrir byggðirnar, að svona starfsemi geti einmitt sprottið upp í litlu byggðunum okkar úti um allt land en fari ekki bara fram á höfuðborgarsvæðinu.