141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held kannski að þetta sé misskilningur ríkisstjórnarflokkanna í hnotskurn. Hafi hv. þingmaður til dæmis lesið stefnu Framsóknarflokksins og hlustað á það sem ég hef stundum fram að færa varðandi hana snýst hún ekki um — ég held að í öllum ræðum okkar hafi komið skýrt fram að við viljum ekki sjá örfá fyrirtæki í landinu. Hagnaður margra verður til í samfélagi sem við höfum þekkt. Það eru gríðarlega mörg fyrirtæki á landinu í dag með gríðarlega umframgetu sem þau hafa líka til að veiða vegna þess að sérstaklega þorskstofninn hefur minnkað, þótt hann hafi sem betur fer vaxið á liðnum árum, m.a. vegna þess að við fylgjum stefnu um sjálfbærar veiðar og við hv. þingmaður erum ekkert ósammála um það held ég.

Hv. þingmaður virðist með sinni skoðun á málinu vera að lýsa því sama og til að mynda Þóroddur Bjarnason prófessor, sem ég var að vitna til áðan, sem sagði að það væri ekki hægt að dreifa veiðum og vinnslu, halda öllum byggðum og þorpum sjálfbærum eingöngu á sjávarútvegi og menn þyrftu að horfa á stærri heildir, það væru stærri atvinnusvæði. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að þeir fjármunir sem meðal annars kæmu inn í greinina vegna veiðigjalda, og þá ekki með þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin setti á í vor sem mun leggja greinina í rúst ef fram heldur sem horfir, að ákveðinn hluti af þeim fjármunum rynni til þessara landsvæða til að byggja upp fjölbreyttari atvinnu, til að búa til fleiri störf og verðmætari en bara fara út og veiða og setja fiskinn í fiskvinnslu. Nútímasamfélag vill miklu fjölbreyttari þætti.

Ef við getum hugsað þetta þannig að stækka atvinnusvæðin með betri samgöngum, betri fjarskiptum, meiri möguleikum með raforku og allt það sem til þarf í grunnstoðirnar getum við byggt upp fleiri, (Forseti hringir.) fjölbreyttari fyrirtæki sem byggja ekki einvörðungu á veiðum og vinnslu heldur fjölþættri starfsemi í ólíkum atvinnugreinum.