141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að það sé sagt er stefna okkar framsóknarmanna auðvitað að ýta undir sem mestan fjölbreytileika í stærðum fyrirtækja. Sem betur fer er staðreyndin sú að langflest fyrirtæki landsins eru fjölskyldufyrirtæki sem hafa starfað í kannski 40–50 ár þrátt fyrir allt, sum hver hafa verið að stækka, önnur hafa staðið í stað og vegna minnkandi kvóta hafa kannski umsvif sumra minnkað, það er lykilatriði.

Já, ég tel að frumvarpið dragi úr nýsköpun. Það er engin áhersla lögð á nýsköpun í frumvarpinu, það stendur hvergi í markmiðunum eins og ég hef margítrekað bent á. Og allt það sem dregur úr hagnaði fyrirtækjanna við að nota þá fjármuni í að skapa nýtt, það dregur úr nýsköpun þannig að þegar ríkisstjórnarflokkarnir ætla að taka svo stóran hluta af þeim sem vinna í greininni en gætu verið að veiða miklu meira, getan er fyrir hendi, mun það draga úr möguleika þeirra til nýsköpunar. Þegar við leggjum síðan veiðigjöldin ofan á er nánast búið að taka alla möguleika fyrirtækjanna á Íslandi til að fara í nýsköpun af stærri stærð og það er akkúrat í þá átt sem við þurfum að fara. Við þurfum að auka verðmætasköpunina og fjölga tækifærunum. Ef Codlandverkefnið yrði að veruleika með stóran hluta af slóginu sem fellur til á Íslandi getum við leikandi aukið virði sjávarútvegs á Íslandi um 100 milljarða. Það er þangað sem við eigum að stefna í staðinn fyrir að vera að bítast um molana og egna fólki hvert gegn öðru, byggðarlagi gegn byggðarlagi, fyrirtæki gegn fyrirtæki, útgerðarflokki gegn útgerðarflokki. Það á að stækka pakkann. Þannig förum við til að mynda út úr kreppunni, út úr atvinnuleysi og þannig styrkjum við byggðir í landinu.

Varðandi kvótaþingið, sem mér finnst vera of pólitískt tengt, er alveg hugsanlegt að það sé hægt, eins og ég sagði, að nota það til þess að fá fram gegnsærra opinbert verð. Þeir fjármunir sem á að fara að taka út samkvæmt niðurstöðum fjálagaskrifstofunnar, við erum að tala um nokkra milljarða til viðbótar sem á að taka út úr greininni og fyrir þá peninga verður ekki til nýsköpun. Þeir eiga að fara til ríkisins sem tekjur. Þar verður engin nýsköpun fyrir þá fjármuni. Þegar við bætum veiðigjöldunum ofan á er það því miður eins og fyrirtækin segja: (Forseti hringir.) Við höfum ekki efni á nýsköpun. Þess vegna dregur frumvarpið úr nýsköpun og það er slæmt.