141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að gjaldeyrishöftin muni bresta. Afnámsáætlun Seðlabankans er komin í öngstræti og þrýstingurinn á gengið eykst sífellt. Það eru engar raunhæfar tillögur um hvernig eigi að afnema gjaldeyrishöftin. Lausn snjóhengjunnar er forsenda þess að við getum losað okkur við gjaldeyrishöftin. Seðlabankinn hefur aldrei komist lengra en að vera með útboð á gjaldeyri fyrir aflandskrónueigendur. Fjárfestum er boðið að koma hér inn með erlent fjármagn og þeir geta valið milli þess að fara fjárfestingarleiðina eða ríkisbréfaleiðina.

Ríkisbréfaleiðin er ekkert annað en vaxtamunarviðskipti eins og þekktust hér fyrir hrun og það á kostnað almennings sem greiðir þessum fjárfestum ríkulega ávöxtun fyrir kaup sín á ríkisskuldabréfum.

Fjárfestingarleiðin er leið fjárfesta til að koma inn í landið með erlent fjármagn og fá fyrir það fleiri krónur en okkur hinum standa til boða. Þetta gerir það að verkum að erlendir fjárfestar geta boðið hærra verð í innlendar eignir. Báðar leiðirnar sem Seðlabankinn er með í boði eru bara gálgafrestur vegna þess að fjármagnið losnar eftir fimm ár.

Útboðsleiðin hefur bara losað okkur við 20% af aflandskrónunum. Enn eru eftir 400 milljarðar og við þann vanda bætast fljótlega 800 milljarðar þegar útgreiðslur úr þrotabúunum hefjast.

Frú forseti. Við erum fallin á tíma. Arðgreiðslur, afborganir, vaxtagreiðslur og leigugreiðslur til erlendra aðila verða stöðugt hærri og veikja krónuna. Það verður (Forseti hringir.) að koma fram raunhæf áætlun um afnám gjaldeyrishafta. (Forseti hringir.) Sú áætlun verður að byggja á mati á öllum tillögum sem liggja fyrir um hvernig hægt sé að leysa snjóhengjuvandann.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk. Það eru tvær mínútur til ráðstöfunar í ræðutíma undir þessum lið.)