141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um störf þingsins undir þessum dagskrárlið, um störf þingsins, þ.e. forgangsröðun þeirra verkefna sem við eigum við að glíma á þeim fáu dögum sem við höfum til þingloka.

Við stóðum frammi fyrir atkvæðagreiðslu í gær. Hvort ættum við að ræða fyrst breytingar á stjórnarskránni, breytingar sem eru hálfunnar, breytingar sem engin sátt er um, breytingar sem mikil andstaða er við, bæði innan þings og utan, eða ræða nýframkomið enn eitt fiskveiðistjórnarfrumvarpið frá ríkisstjórninni þar sem engar eða aðeins smávægilegar breytingar eru gerðar frá fyrri áformum sem fengið hafa falleinkunn úti í samfélaginu, hér á þinginu, meðal hagsmunaaðila og annarra sem um þetta mál hafa fjallað?

Á sama tíma er Landspítalinn í uppnámi vegna kjaradeilu þar sem segja má að hæstv. velferðarráðherra hafi verið sá sem kveikti bálið með þeirri ákvörðun að hækka laun forstjóra Landspítalans. Ég tek fram að hann er vænsti drengur og hefur staðið sig vel, en hæstv. velferðarráðherra ber ábyrgð á þeirri stöðu sem þar er komin upp.

Við stöndum frammi fyrir því að vandi heimila og fyrirtækja hér á landi er engu minni en hann hefur verið og það er ekkert gert til að koma heimilunum og fyrirtækjunum til bjargar og auka hér hagvöxt. Allir hagvísar benda til þess að hér sé svartara fram undan en okkur hefur verið talin trú um af hæstv. ríkisstjórn, hagvaxtarspáin er niður og allir hagvísar benda í sömu átt. (Forseti hringir.) Þá tölum við um það hér um hvort ágreiningsmálið við eigum að ræða fyrst, stjórnarskrána eða fiskveiðistjórnina.

Frú forseti. Ég óska eftir því að forseti (Forseti hringir.) beiti sér fyrir því að við tökum á dagskrá mál sem eru brýn, áríðandi og aðkallandi, ekki gælumál (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann sem er tvær mínútur og biður þingmenn um að virða hann.)