141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í póstinum til hv. þingmanns og nefndarinnar í gær kom fram að ætlunin væri að freista þess að fá álit Feneyjanefndarinnar þýtt áður en það yrði gert opinbert. Ég held að ég hafi tjáð einhverjum þingmönnum í gær að ég mundi hafa nánari fregnir af því hvernig það gengi allt fyrir sig í morgun, sem og varð. Það tekur lengri tíma en ég hafði vonað og þá í framhaldi af því, eins og eðlilegt er, hefur þetta álit verið birt og er á vef þingsins. Ég held að fréttatilkynning hafi verið send út á fjölmiðla um að svo væri. Þetta gerðist ekki fyrr en klukkan eitt enda átti ég símastefnumót við þýðendur rétt fyrir klukkan tíu í morgun. Eins og hv. þingmaður veit vel sat ég bundin á fundi sem og hjálparhellur okkar á nefndasviði til klukkan að verða eitt en nú er þetta sem sagt komið.

Hins vegar skýrði ég líka frá því í nefndinni og fékk ekki nein mótmæli gegn því að ég hygðist ekki taka málið fyrir á fundi nefndarinnar fyrr en þýðing lægi fyrir. (VigH: Af hverju var hún merkt trúnaðarmál?) Álitið var merkt trúnaðarmál vegna þess að ætlunin var að birta það ekki opinberlega fyrr en það hefði verið þýtt. Það er ástæðan fyrir því. Ég hélt að það hefði komið fram í póstinum, ég skildi hann að minnsta kosti þannig.