141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil enn hvetja framsóknarmenn til dáða vegna djarflegra (Gripið fram í: Takk fyrir það.) yfirlýsinga þeirra og stefnumótunar um afnám verðtryggingar. Ég minni á það sem formaður þeirra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði að loknu þinginu, að nú yrði sótt að okkur úr öllum áttum, sagði hann, og það hefur gerst. Ákaflega ómaklega hefur verið sótt að framsóknarmönnum úr öllum áttum fyrir þetta. Þá er ég ekki að tala um þá sem hér í salnum hafa spurt framsóknarmenn út í þetta heldur hafa sótt að framsóknarmönnum þeir sem hefðu átt að hlífa. Höggva þeir sem hlífa skyldu. Jón Steinsson hagfræðingur, hvað er hann að ybba gogg? (Gripið fram í.) Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, ryðst fram með atlögu, þannig að upp sé tekið orðalag hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur úr öðru samhengi, (Gripið fram í.) að sínum gamla flokki vegna þessa máls. Verst er að hagfræði- og viðskiptablaðamaður Fréttablaðsins skrifar leiðara sem er rétt að tala bara ekki mikið meira um hér. Þeir halda því fram að þetta séu ódýr og billeg loforð.

Þeir leyfa sér að halda því fram að aðalvandamálið sé ekki verðtryggingin heldur verðbólgan, sem allir skilja með framsóknarmönnum að er auðvitað ekki rétt. Við þessu merkilega frumkvæði Framsóknarflokksins leyfa þeir sér að segja að skortur sé á stöðugleika í peningamálum, það sé jafnvel hinn sjálfstæði gjaldmiðill þessa pínulitla hagkerfis sem valdi því að málin eru jafnslæm og raun ber vitni. Sumir þeirra leyfa sér meira að segja ofan í heilt flokksþing heila helgi að það sé hugsanlega nýr gjaldmiðill, evran, sem eigi að taka við. Svo bíta þeir höfuðið af skömminni með því að líkja þessu við hið gamla loforð um 90% húsnæðislán sem allir vita (Forseti hringir.) að fór ákaflega vel, bjargaði heilum kynslóðum og átti engan þátt í því sem síðar gerðist hér. Ég hvet framsóknarmenn til að rísa upp og (Forseti hringir.) standa gegn óvinum sínum. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það verður sótt að þeim áfram en ég treysti hinum forna flokki Ólafs Jóhannessonar til þess að standa af sér þessi (Forseti hringir.) högg og þessar atlögur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)