141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í þessa umræðu við mig. Sparisjóðirnir eru mikilvægur hluti af fjármálakerfi og -umhverfi landsins og hafa verið það í gegnum tíðina. Þeir eiga sér mjög merka sögu bæði er lýtur að starfsemi á fjármálamarkaðinum en ekki síst menningarlega og samfélagslega sögu, þar sem sparisjóðirnir hafa í gegnum tíðina, hringinn í kringum landið, á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar, sinnt mikilvægum samfélagslegum og menningarlegum verkefnum ásamt því að sinna hefðbundinni fjármálaþjónustu.

Við efnahagsráðherra ræddum örstutt í gær um samkeppnishliðina er varðar endurreisn sparisjóðakerfisins og tilraunir stóru bankanna til þess að eignast sparisjóðina. Við ræddum niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Svarfdæla og yfirvofandi yfirtöku eða kaup Arion banka á Afli sparisjóði. Það þarf ekkert að velkjast í vafa eftir þá umræðu um að vilji þingmanna sem tóku þátt í umræðunni er að sparisjóðakerfið verði til og eflist. Ég vil nefna til dæmis góða ræðu hæstv. utanríkisráðherra þar sem ráðherrann tók af allan vafa um sína sýn á mikilvægi sparisjóðanna og lykilhlutverk þeirra í framtíðarfjármálakerfi landsins.

Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig ráðherrann sér þetta kerfi fyrir sér í framtíðinni, hvernig framtíð sparisjóðakerfisins sé best borgið. Við þurfum að hafa nokkur atriði í huga, meðal annars það samfélagslega hlutverk sem ég nefndi áðan og þá staðreynd að ríkissjóður á töluvert undir því að vel takist til, þar sem ríkissjóður hefur leyst til sín hluti í sparisjóðunum og jafnvel heilu sjóðina.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherrann hafi látið kanna stöðu og framtíð sparisjóðanna. Það er mikilvægt að hafa staðreyndir og álit fagaðila til taks þegar við ræðum þessa hluti og því er mikilvægt að fá það á hreint hver sýn Samkeppniseftirlitsins er, og fleiri aðila að sjálfsögðu.

Ég hugsa að ekkert okkar vilji sjá einn, tvo eða þrjá risastóra banka gína yfir öllum almenna fjármálamarkaðinum, einstaklingsþjónustu og slíku. Við þekkjum dæmin utan af landi sérstaklega þar sem bankarnir hafa ekki viljað veita ákveðna þjónustu og hafa þá sparisjóðirnir þurft að grípa inn í.

Að lokum varpa ég spurningu fram til hæstv. ráðherra um hvernig megi helst styrkja sparisjóðakerfið. Þetta held ég að séu allt lykilspurningar sem gott væri að fá svör við. Við vitum að ef einstakar yfirtökur sem áformaðar eru ganga eftir þá hverfa inn í stóru bankana burðarmiklir sparisjóðir sem vel geta lifað að mati okkar margra. Nefni ég þar Afl sparisjóð sem er, að mig minnir, um 20–30% af þeim sparisjóðum sem eftir lifa í dag. Það er því eðlilegt að við tökum þessa umræðu til þess að ná utan um málið og til þess að átta okkur á og reyna að fá svör við því hvert ráðherra og hvert ríkisvaldið stefnir með sjóðina.

Mig langar að minnast aftur á skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kallast Fjármálaþjónusta á krossgötum þar sem er fjallað um sparisjóðina í allítarlegu máli. Kafli 10 í þeirri skýrslu heitir: Núverandi sparisjóðir fela í sér tækifæri. Við sjáum mörg að það eru tækifæri í því að efla sparisjóðina, hringinn í kringum landið. Það kann að vera að hugsanlega þurfi að sameina eða eitthvað slíkt, en það sem mestu skiptir er að þessi gerð af fjármálaþjónustu verði til staðar því að hlutverk þeirra er svo mikilvægt.

Það má í sjálfu sér skilja það að stóru bankarnir óttist þessa þjónustu og þessar stofnanir, því árum saman mældust sparisjóðirnir með vinsælustu fyrirtækjum landsins og þeim sem fólk bar mest traust til. Því er mikilvægt fyrir okkur að reyna að leita svara varðandi framtíðina og því óskaði ég eftir þessari umræðu við hæstv. ráðherra.