141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að ræða stöðu sparisjóðanna hér á landi enda deili ég bæði áhuga hans og áhyggjum af framtíð þeirra. Ég hef verið með málefni sparisjóðanna til ítarlegrar skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á undanförnum mánuðum þar sem við höfum kallað þó nokkra ráðgjafa að borðinu til þess að fara yfir og reyna að leggja drög að nýrri framtíð fyrir sjóðina í landinu.

Í gegnum Bankasýslu ríkisins á ríkissjóður núna allt frá tæplega helmingi og upp í rúmlega 90% í fimm af samtals níu sparisjóðum sem nú eru starfandi í landinu. Ríkið hefur því umtalsverða fjárhagslega hagsmuni af því að sparisjóðirnir verði aðlaðandi kostir fyrir fjárfesta á næstu árum. Í einfaldari mynd má segja að af kerfinu öllu eigi ríkið rúmlega 40%, allt upp að 50%. Það eru ekki eingöngu eigendahagsmunir ríkisins sem þarna eru í húfi, heldur getur framtíð sparisjóðanna líka skipt mjög miklu máli, eins og fram hefur komið, við að tryggja næga samkeppni í fjármálaþjónustu hér á landi. Til þess þurfa þeir að vera öflugar og rekstrarhæfar einingar sem ráða við að veita bæði fyrirtækjum og einstaklingum alla nauðsynlega fjármálaþjónustu.

Eins og hv. þingmaður benti á áðan er athyglisvert að skoða í þessu sambandi nýja og ítarlega skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem ber heitið Fjármálaþjónusta á krossgötum. Þar er heill kafli um þau tækifæri sem núverandi sparisjóðir fela í sér og beinlínis er varað við því að smærri aðilar hverfi af markaði eða að frekari samruni verði þar sem samkeppnisaðhald á fjármálamarkaði sé ekki nægjanlegt. Samkeppniseftirlitið er augljóslega með vökult auga á þróun mála og hefur þegar gripið inn í mál tengd samruna sparisjóða. Í skýrslunni bendir Samkeppniseftirlitið á að efla megi samkeppni, hvort sem er með endurreisn sparisjóðakerfisins eða því að það kerfi í núverandi mynd verði stökkpallur fyrir nýja aðila inn á bankamarkaðinn. Það kemur alveg skýrt fram að mjög erfitt er fyrir algjörlega nýja aðila að koma inn á íslenskan fjármálamarkað og því skiptir máli að nýta það sem er þar fyrir til þess að auka samkeppni á markaði.

Vegna þessarar stöðu hef ég skoðað möguleika og sóknarfæri sparisjóðanna sérstaklega og í framhaldi af þeirri skoðun sendi ég stjórn Bankasýslunnar bréf því Bankasýslan heldur á eignarhlut ríkisins í sparisjóðunum. Í því bréfi fór ég yfir það hvort þar væri vilji til að kanna alla möguleika til eflingar sparisjóðakerfinu þannig að hagsmunir ríkisins sem eiganda annars vegar og neytenda gagnvart fjármálaþjónustu og samkeppni hins vegar fari saman.

Stjórn Bankasýslunnar hefur svarað þessu jákvætt enda hefur á hennar vegum verið leitað leiða til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur sparisjóðanna í þó nokkurn tíma og ljóst er að núna eru allar leiðir til skoðunar. Ástæðan fyrir því að þetta mál fer af stað aftur núna er sú að undanfarið hefur verið unnið að samruna Afls sparisjóðs, eins og hv. málshefjandi kom inn á áðan, og Arion banka. Arion banki á núna um 99% af Afli en Afl er um fjórðungur af stærð sparisjóðakerfisins í heild. Ýmsir hafa því lýst áhyggjum af því að ef þessi hlutfallslega tiltölulega stóri sjóður hverfi af sviðinu þá veiki það um of þá sparisjóði sem eftir standa með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á eigendahagsmuni ríkisins og líka mögulega samkeppni á fjármálamarkaði til framtíðar litið.

Við höfum því tekið málinu býsna alvarlega og þær greiningar sem við höfum látið vinna fyrir okkur í fjármálaráðuneytinu segja nákvæmlega þetta. Bankasýslan er því að vinna að svokallaðri forkönnun, með ákveðnum skýrum skilyrðum, á þeim tækifærum sem Afl gæti skapað fyrir sparisjóðakerfið í heild. Of snemmt er að segja til um hvað kemur út úr þeirri vinnu eða hvort Samkeppniseftirlitið muni hafa einhver frekari afskipti í ljósi sinnar nýjustu skýrslu af samrunaáformum á þessum markaði. Algjörlega óljóst er hvað kemur út úr þessu enn þá enda er slíkt ekki á valdi ráðherra beint, en þetta er allt til ítarlegrar skoðunar innan Bankasýslunnar.

Það sem er mikilvægast í mínum huga er að hagsmunir ríkisins sem eiganda, heimamanna og neytenda fari saman. Eigi sparisjóðakerfi að gegna hlutverki sínu áfram þá þarf það að vera samkeppnishæft, nógu öflugt til að bjóða alhliða fjármálaþjónustu og vera aðlaðandi fjárfestingarkostur þegar fram líða stundir. Að þessu getum við vonandi unnið þvert á flokka hér á þingi á komandi missirum.