141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir umræðu um sparisjóðina sem við höfum svo sem rætt áður en er nauðsynlegt að taka af og til. Hér var farið yfir hugmyndafræði sparisjóðanna, í hvaða tilgangi sparisjóðirnir voru stofnaðir á sínum tíma, þ.e. að starfa með svæðisbundnum hætti, þjóna nærsamfélagi sínu, sinna einstaklingum og minni fyrirtækjum og síðast en ekki síst að axla ákveðna samfélagslega ábyrgð á sínu svæði. Fall sparisjóðanna fólst ekki í því að núverandi ríkisstjórn hafi látið Spron fara á hausinn. Það finnst mér furðuleg skýring satt best að segja. Það fyrirtæki var ónýtt og fór alveg sjálft á hausinn án aðstoðar ríkisins á sínum tíma. Það var alveg fullfært um það, ef ég hef náð að lesa rétt í þá reikninga.

Sparisjóðirnir féllu vegna þess að þeir fjarlægðust hlutverk sitt. Þeir fóru að haga sér eins og stórir bankar, víkkuðu starfssvið sitt út, þeir breyttu hugmyndafræðinni og fjarlægðust upphafleg markmið sín. Það var ástæðan fyrir því að sparisjóðakerfið og sparisjóðirnir fóru á hausinn og stór hluti þeirra lenti í fanginu á ríkinu á sínum tíma. Við þurfum að velta fyrir okkur og spyrja okkur að því hvort það sé pláss fyrir sparisjóðina, hvort það sé tilgangur með þeim, hvort rétt sé að endurreisa þá. Ég er þeirrar skoðunar að sparisjóðirnir hafi enn hlutverk og að kallað sé eftir þeim, það sé eftirspurn eftir þeim eins og þeir voru á sínum tíma. Það er hlutverk okkar að skapa skilyrði til að sparisjóðirnir verði endurreistir en þá í sömu mynd og á þeirri hugmyndafræði sem þeir byggðust á í upphafi. Það er þörf fyrir sparisjóðina, það er þörf fyrir minni fjármálastofnanir sem starfa á tilteknum svæðum, sem sinna einstaklingum og minni fyrirtækjum til mótvægis við stóru fjármálastofnanirnar, stóru bankana sem starfa á landsvísu með allt aðra hugmyndafræði í farteskinu.